Athugið þessi frétt er meira en 10 ára gömul.

Haldið ykkur heima

06.03.2013 - 11:02
Mynd með færslu
 Mynd:
Fólk á að halda sig heima sama hversu brýnt erindi það telur sig eiga út því það kemst hvort eð er ekki leiðar sinnar, segir Víðir Reynisson, deildarstjóri almannavarna. Lögregla, björgunarsveitir og almannavarnir hvetja fólk til að vera ekki á ferli.

„Málið er einfaldlega það að það er ófært um alla borgina. Þó þú eigir brýnt erindi kemstu ekki neitt. Lykilleiðir eru einfaldlega lokaðar út af færð og út af föstum bílum og skyggninu. Það er ekki hægt að komast um stóran hluta höfuðborgarsvæðisins eins og staðan er,“ segir Víðir. Þá skiptir engu á hversu stórum jeppum fólk er. „Það breytir ekki neinu. Þú keyrir ekki yfir hina bílana.“

Fólk á höfuðborgarsvæðinu á að halda sig heima ef það er ekki þegar farið af og ef það er í umferðinni skammt frá heimili sínu ætti það að snúa við ef þess er nokkur kostur. Þetta er samdóma álit þeirra sem koma að almannavörnum og björgunaraðgerðum. 

 

Fastir bílar út um allt hamla för björgunarsveita

Víðir segir veður vera vont víðast hvar um landið en nú snúa helstu áhyggjur manna að höfuðborgarsvæðinu. Þar sé gríðarlegur fjöldi bíla á götum úti sem komist ekkert. Það geri að verkum að það sé erfitt að koma björgunarsveitarfólki þangað sem það þarf að veita aðstoð og eins komast snjóruðningstæki ekki til að ryðja götur. Til þess eru þær einfaldlega of fullar af föstum bílum.

„Það er fjöldi óhappa og einhver slys hafa orðið á fólki. Það er meðal annars þess vegna sem við hvetjum fólk til að vera ekki á ferðinni. Við eigum erfitt með að komast á þessa staði þar sem óhöppin hafa orðið til að átta okkur á sambandinu,“ segir Víðir. 

Veður verður slæmt fram eftir degi. „Spáin er alla vega svona fram eftir degi. Það á hugsanlega að minnka úrkoman en það verður áfram hvasst þannig að skafrenningur verður áfram, svo ástandið mun ekki batna alveg á næstunni. Það sem mun gerast ef við náum að leysa úr þessum umferðarflækjum sem eru út um allt er að þá verður mögulegt að ryðja göturnar þannig að þeir sem eiga brýnt erindi komast um. En meðan göturnar eru fullar af bílum komast snjóruðningstæki ekki að.“

Ekkert ferðaveður er á Reykjanesbraut og þar hafa orðið umferðaróhöpp í morgun.

 

Börnum óhætt í grunn- og leikskólum

„Það eru allir skólar opnir og kennarar og leikskólakennarar hugsa vel um börnin. Það eru engin börn send heim eða neitt slíkt svo foreldrar geta alveg verið rólegir með það. Börnin eru í skólanum og þau verða þar áfram,“ segir Víðir og segir enga ástæðu til að sækja þau núna.