Halda enn uppi málþófi um krónueignir

26.02.2019 - 22:39
Mynd með færslu
 Mynd:
Þingmenn Miðflokksins halda enn uppi umræðum á Alþingi um meðferð krónueigna sem háðar eru sérstökum takmörkunum og gjaldeyrismál. Þeir hafa nú beitt málþófi í rúma sjö klukkutíma gegn frumvarpi fjármálaráðherra sem mun heimila svokölluðum aflandskrónueigendum að losa krónueignir sínar að fullu.

Til snarpa orðaskipta kom milli Sigmundar Davíðs og Smára McCarthy í umræðum um frumvarpið fyrr í dag.

Smári velti því þá upp af hverju Miðflokkurinn vildi reyna að tefja framgöngu málsins og setti það í samhengi við Wintris-málið svokallaða. „Það muna allir eftir því að sá sem talaði mest um hrægammana var einn af þeim sjálfur,“ sagði Smári. Hann vissi ekki hvernig staðan á fyrirtækinu Wintris væri en velti því upp hvort Sigmundur Davíð gæti ekki varpað ljósi á það. „Úr því að Miðflokkurinn er kominn í þennan málþófsgír, þá er rétt að spyrja, af hverju?“

Sigmundur brást reiður við ræðu Smára og sagði því fá takmörk sett hversu framganga Pírata gæti verið ógeðfelld. Það væri löngu tímabært að siðanefndin tæki mál þeirra fyrir. Hann sagði Smára hafa gerst sekan um meiðyrði því hann hefði logið og gert sér far um að stimpla inn ógeðfellda mynd sem Smári og aðrir þingmenn Pírata hefðu reynt að koma inn hjá fólki. „Ég hef aldrei haft nokkur tengsl við hrægammasjóði. Konan mín tapaði peningum þegar bankarnir hrundu og gaf þá eftir.“

Eftir að Wintris-málið kom upp var greint frá því á vef RÚV að Wintris, félag í eigu Önnu Sigurlaugar Pálsdóttur, hefði lýst kröfum upp á rúman hálfan milljarð í þrotabú Landsbankans, Kaupþings og Glitnis.

Auður Aðalsteinsdóttir
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi