Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Hakkarar tóku yfir milljón heilsufarsskýrslur

20.07.2018 - 16:35
epa06900334 Singapore's Minister for Communication and Information S Iswaran (L) and Singapore's Minister of Health Gan Kim Yong (R) give a press conference on a recent breach of health data, in Singapore, 20 July 2018. According to media
Heilbrigðisráðherra Singapúr, Gan Kim Yong, á blaðamannafundi vegna málsins. Mynd: EPA-EFE - STRAITS TIMES
Hakkarar stálu á dögunum fjölda heilsufarsskýrslna í Singapúr, þar á meðal skýrslu forsætisráðherra borgríkisins. Alls tóku þeir eina og hálfa milljón skýrslna. Þetta er mesti gagnastuldur sem átt hefur sér stað í Singapúr.

Lee Hsien Loong, forsætisráðherra Singapúr, sagði í dag að ljóst væri glæpurinn hafi verið skipulagður í þaula. Heilbrigðisráðherrann sagði á fundi með fjölmiðlum í dag að þrjótarnir hafi sérstaklega reynt að ná skrám forsætisráðherrans. Sjálfur sagði Loong á Facebook-síðu sinni að hann viti ekki hvað þeir hafi vonast til að finna. „Kannski voru þeir að leita að einhverjum ríkisleyndarmálum eða að minnsta kosti einhverju sem kemur sér illa fyrir mig. Heilsufarsskýrslan mín er ekki eitthvað sem ég myndi undir eðlilegum kringumstæðum deila með fólki en það eru þó engin stórtíðindi í henni,“ skrifaði forsætisráðherrann á Facebook.

Hakkararnir notuðu spilliforrit til að komast að gögnunum frá 27. júní og til 4. júlí, áður en stjórnvöld urðu vör við nokkuð athugavert. Fyrr á árinu tóku lög gildi í Singapúr sem kveða á um að ríkisstofnunum, heilbrigðisstofnunum og öryggisfyrirtækjum beri að grípa til aðgerða til að vernda gögn á netinu. Í fyrra brutust hakkarar inn í tölvukerfi hersins og stálu upplýsingum um 850 hermenn.

dagnyhe's picture
Dagný Hulda Erlendsdóttir