
Lee Hsien Loong, forsætisráðherra Singapúr, sagði í dag að ljóst væri glæpurinn hafi verið skipulagður í þaula. Heilbrigðisráðherrann sagði á fundi með fjölmiðlum í dag að þrjótarnir hafi sérstaklega reynt að ná skrám forsætisráðherrans. Sjálfur sagði Loong á Facebook-síðu sinni að hann viti ekki hvað þeir hafi vonast til að finna. „Kannski voru þeir að leita að einhverjum ríkisleyndarmálum eða að minnsta kosti einhverju sem kemur sér illa fyrir mig. Heilsufarsskýrslan mín er ekki eitthvað sem ég myndi undir eðlilegum kringumstæðum deila með fólki en það eru þó engin stórtíðindi í henni,“ skrifaði forsætisráðherrann á Facebook.
Hakkararnir notuðu spilliforrit til að komast að gögnunum frá 27. júní og til 4. júlí, áður en stjórnvöld urðu vör við nokkuð athugavert. Fyrr á árinu tóku lög gildi í Singapúr sem kveða á um að ríkisstofnunum, heilbrigðisstofnunum og öryggisfyrirtækjum beri að grípa til aðgerða til að vernda gögn á netinu. Í fyrra brutust hakkarar inn í tölvukerfi hersins og stálu upplýsingum um 850 hermenn.