Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Haítískir flóttamenn drukknuðu í Karíbahafi

04.02.2019 - 04:54
epa05343251 A buoyancy aid lies on a beach where bodies of migrants washed up, in Zuwarah, west of Tripoli, Libya, 02 June 2016. According to media reports citing Red Crescent officials, at least 85 bodies have washed up onto Libyan beaches this week.
 Mynd: EPA
Að minnsta kosti 28 Haítar drukknuðu undan ströndum Abaco-eyja í Bahama um helgina. Her Bahama greindi frá því í dag að eftir tveggja daga björgunaraðgerðir hafi 17 fundist á lífi og 28 lík verið dregin úr sjónum. Að sögn Al Jazeera sökk bátur þeirra á laugardag, um tíu kílómetrum undan strönd Marsh Harbour í Abaco.

Sífellt fleiri virðast reyna að komast úr fátækum ríkjum Mið-Ameríku til Bandaríkjanna, hvað sem það kostar. Bandaríska sendiráðið á Haíti skrifaði á Twitter að engin ferð sé þess virði að hætta lífi sínu fyrir. 

Að sögn hersins á Bahama hafa um 300 Haítar verið handsamaðir í landinu fyrir að koma inn í það án skilríkja það sem af er ári. Íbúar Haítí reyna ítrekað að komast úr sárri fátækt til Bahama, eða annarra eyja í Karíbahafinu.

Þúsundir ungra Haíta hafa farið til Síle og Brasilíu undanfarin ár, þar sem þeir eiga auðveldara með að verða sér úti um vegabréfsáritun.
 

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV