Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Háhyrningurinn hreyfingarlaus í fjörunni

31.08.2019 - 08:44
Mynd: Hilma Steinarsdóttir / Hilma Steinarsdóttir
Háhyrningurinn sem björgunarsveitarmenn losuðu úr grjótgarði í höfninni á Þórshöfn í nótt lá upp í fjöru rétt utan við hafnargarðinn um klukkan hálf átta í morgun samkvæmt heimildum fréttastofu. Engin hreyfing var á skepnunni og er hún talin dauð. Lögreglu var tilkynnt um málið.

Björgunarsveitin var kölluð út í gærkvöld eftir að tilkynning barst um hvalinn. Þorsteinn Ægir Egilsson, einn þriggja björgunarsveitarmanna, sem tók þátt í að koma háhyrningnum aftur út í sjó og út fyrir höfnina sagði í samtali við fréttastofu í nótt að hvalurinn hafi verið vankaður. Hann væri þó á lífi og blési vél frá sér. Eftir að búið hafi verið að koma háhyrningnum út fyrir varnargarðinn hafi hann verið skilinn eftir samkvæmt ráðleggingum frá MAST. Skepnan væri þó enn nokkuð vönkuð. 

Háhyrninginn hefur greinilega borið aftur á land og liggur nú hreyfingarlaus í fjörunni rétt utan við hafnargarðinn. Ekki náðist í lögregluna á Þórshöfn við vinnslu fréttarinnar.