Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Hagvöxtur undir því sem spáð var

09.12.2014 - 22:31
Mynd með færslu
 Mynd:
Mynd:  / 
Svigrúm fyrir verulegar launahækkanir hefur minnkað vegna minni hagvaxtar, segir forstöðumaður greiningardeildar Ariona banka. Hagvöxtur er töluvert undir því sem spáð var.

Samkvæmt nýjustu Hagtíðindum Hagstofu Íslands var hagvöxtur á þriðja ársfjórðungi neikvæður um 0,2% og hagvöxtur á fyrstu þremur ársfjórðunungum var hálft prósent, en samkvæmt spá Hagstofunnar í síðasta mánuði var spáð 2,7% hagvexti.

Regína Bjarnadóttir, forstöðumaður greiningardeildar Arion banka, segir innflutning hafa verið mikinn og lítil einkaneyslu á þriðja ársfjórðungi komi á óvart. Arion banki hafi spáð minni einkaneyslu á seinni hluta ársins en fyrri og ekki hafi verið full innistæða fyrir hluta neyslunnar því mikið var tekið út af séreignarsparnaði.

Hagvöxturinn á þriðja ársfjórðungi sé verulega lágur. „Það er spurning hvort að þar spili eitthvað inn í sambandi við skuldaleiðréttingu ríkisstjórnarinnar, að fólk hafi einfaldlega verið að bíða eftir að sjá hvað það fengi og lítil neysla verið í september og einnig að fyrirhuguð lækkun vörugjalda hafi líka haft áhrif á þriðja ársfjórðungi. Ég yrði ekkert hissa ef þessar tölur yrðu eitthvað uppfærðar þegar líður á tímann,“ segir Regína.

Hún minnir á að tekjuáætlun ríkissjóðs byggist á spá Hagstofunnar og því geti hún haft áhrif á næsta ári, það skipti því máli að sýna aðhald í ríkisrekstri til að eigi inni fyrir breytingum sem þessum. Staðan nú sýni að minni þróttur sé í hagkerfinu en ráð var fyrir gert og það geti haft áhrif á kjarasamninga. „Því tel ég að innistæða fyrir verulegum launahækkunum sé ennþá minni en við gerðum ráð fyrir fyrir nokkrum mánuðum.“