Hagur sveitarfélaga vænkast til muna

Mynd með færslu
 Mynd: Einar Rafnsson - RÚV
Flest sveitarfélögin sem hafa skilað ársreikningi, og voru með aðlögunaráætlun hjá eftirlitsnefnd um fjármálum sveitarfélaga, eru búin að ná markmiðum áætlunarinnar - sum jafnvel á undan áætlun. Staða sveitarfélaganna snarbatnaði á síðasta ári frá árinu áður.

Mörg sveitarfélög hafa skilað ársreikningi fyrir síðasta ár og öll sýna þau mun betri afkomu og stöðu en reikningarnir 2015. Þetta er hvergi jafn skýrt og á reikningi Reykjavíkurborgar sem var birtur nú í vikunni. Þar er afkomu samstæðunnar snúið úr fimm milljarða halla í ríflega 26 milljarða afgang og skuldahlutfallið, sem er hlutfall skulda af tekjum, fer áfram lækkandi. Þá lækka skuldir og skuldbindingar samstæðunnar um rúma 11 milljarða milli ára.

En staðan batnar víðar, og nokkur sveitarfélög sem hafa verið í aðlögunaráætlun vegna of mikilla skulda, hafa náð markmiðum áætlunarinnar. Samkvæmt lögum mega skuldir sveitarfélaga ekki nema meiru en 150% af tekjum. Kópavogur og Hafnarfjörður eru meðal þeirra sveitarfélaga sem hafa verið í aðlögunaráætlun til að koma hlutfallinu í þessi mörk, og báðum tókst það á síðasta ári. Skuldaviðmið Kópavogs er nú 146%, og 148% í Hafnarfirði. Bæði þessi sveitarfélög eru því laus frá eftirlitsnefndinni. Grundarfjörður er líka kominn undir þessi mörk en þar og í Hafnarfirði var markmiðið að það næðist 2019.

Nokkur önnur sveitarfélög sem hafa verið í aðlögunaráætlun hjá eftirlitsnefndinni hafa ekki skilað ársreikningi, meðal annars Norðurþing og Sandgerði.

Ekki eru þó öll sveitarfélögin búin að ná þessu. Þar er nærtækasta dæmið Reykjanesbær, sem hefur verið að endursemja við kröfuhafa til að taka á fjárhag sveitarfélagsins. Skuldaviðmiðið þar er nú 208% en það var 230% árið áður. Þá er Fljótsdalshérað með skuldaviðmið upp á hundrað áttatíu og eitt prósent en sveitarfélagið hefur þrjú ár til að koma því niður í lögmætt horf.

 

hallgrimur's picture
Hallgrímur Indriðason
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi