Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Hagsmunasamtök um borgaralaun eru listaverkið

Mynd: Arebyte gallery / Arebyte gallery

Hagsmunasamtök um borgaralaun eru listaverkið

30.06.2018 - 09:00

Höfundar

Félag borgara nefnast nýstofnuð hagsmunasamtök borgara og þrýstihópur um borgaralaun. Hagsmunasamtökin voru formlega kynnt í Arebyte-galleríinu í London þar sem nú stendur yfir sýning myndlistarmannsins Sæmundar Þórs Helgasonar, Fellowship of citizen, fyrsta einkasýning hans í borginni.

Félagið er einhvers konar gjörningur sem teygir sig út fyrir rými listarinnar og reynir að hafa annars konar áhrif á samfélagið en tíðkast yfirleitt á listsviðinu. Skilyrðislauslaus grunnframfærsla, svokölluð borgaralaun, hefur á undanförnum árum orðið áberandi í umræðum um hvernig hægt sé að bæta samfélög heims í framtíðinni – gera þau sanngjarnari og lífvænlegri. Hugmyndin um borgaralaun felst í því að allir borgarar landsins fái skilyrðislaust ákveðna upphæð, sem nemur grunnframfærslu, greidda frá ríkinu mánaðarlega. Þó hugmyndin hljómi útópísk hefur hún hlotið nokkurn hljómgrunn í Evrópu og ýmis tilraunaverkefni verið sett af stað.

Getur stuðlað að nýsköpun

Hér á landi hafa það helst verið píratar sem hafa lagt slíkar hugmyndir fram en talað fyrir daufum eyrum. Fjölmörg ólík rök hafa verið lögð fram í umræðum um borgaralaun á undanförnum árum. Þau eru sögð fýsilegt tæki til að koma í veg fyrir fátækt, styrkja félagsleg réttindi og koma í veg fyrir niðurlægjandi upplifun af bótakerfinu. Þau eru sögð góð leið til að takast á við atvinnuleysi sem gæti fylgt aukinni vélvæðingu í framtíðinni, eða ný leið til að skipuleggja samfélag þar sem vinnan leikur ekki jafn miðlægt hlutverk, þar sem að gildi einstaklingsins veltur ekki á hvaða starfi hann sinnir og hlýtur laun fyrir.  Borgaralaunin eru enn fremur sögð líkleg til að stuðla að nýsköpun á sviði tækni jafnt sem lista, styrkja grundvöll grasrótarverkefna á sama tíma og þau minnka umsýslu ríkisins.

Til að greiða fyrir launin reikna flestir með að skattar verði hækkaðir auk þess sem dregið yrði úr öðrum bótagreiðslum eða þær lagðar af: örorku-, atvinnuleysisbótum og öðru slíku. Rökin eru að með því að einfalda bóta- og eftirlitskerfið sparist mikið fé sem geti farið beint í vasa borgaranna. Hins vegar hafa hugmyndirnar verið gagnrýndar bæði á hagfræðilegum og sálfræðilegum forsendum.

Happdrætti fjármagnar starfsemina

Félag borgara eða Fellowship of citizen nefnast nýstofnuð hagsmunasamtök borgara og þrýstihópur um borgaralaun. Hagsmunasamtökin voru formlega kynnt í Arebyte-galleríinu í London þar sem nú stendur yfir sýning myndlistarmannsins Sæmundar Þórs Helgasonar. Samkvæmt tilkynningu sem gefin var út vegna stofnunarinnar ætlar félagsskapurinn að standa fyrir ýmsum viðburðum til að kynna og sýna fram á gildi og fýsileika borgaralauna og safna peningum fyrir BIEN, Basic Income Earth Network, Hnattræna borgaralaunanetið.

„Hugsunin er að fjármagna verkefni af ýmsum toga sem geta síðan þjónað sem kynning á hugmyndinni um borgaralaun,” segir Sæmundur Þór. Fyrsta verkefni Félags borgara verður að koma á happdrætti og safna þannig peningum til að fjármagna starfsemina.  Eins og nafnið gefur kannski til kynna, Happdrætti listamanna, er lottóið innblásið af upplifun Sæmundar og margra annarra af listamannalaunakerfinu á Íslandi, þar sem fólk upplifir það sem hálfgert happdrætti hvort það fái laun eða ekki. En þar er það smekkur og dagstemning andlitslausrar dómnefndar sem metur það hver fær styrk í það og það skiptið.

Upphaflega markmiðið var að veita einum Íslendingi borgaralaun í einn mánuð. En þar sem reglur um happdrætti eru strangar og lagalega flókið að fá leyfi til að veita peningaverðlaun. Þá stefnir Sæmundur á að lottóvinningshafinn hljóti gullskúlptúr eftir Önnu Mikkola sem er smíðaður úr 100 grömmum af gulli. „Við ætlum að sjá hvort að sýslumaður líti nokkuð á listaverk sem ígildi peninga. Sjá hvort að hann líti á listaverkið sem vöru,” segir hann.

Það má segja að sýning Sæmundar í Arebyte-galleríinu í London sé opnunarviðburður félagsins. Á myndum og myndböndum sem finna má á internetinu eru fimm mannshæðar háar ljósmyndir Í miðju gólfi gallerísins, myndir sem snúast hægt og rólega. Myndirnar sem eru teknar af Berglaugu Petru Garðarsdóttur sýna persónur og stillur úr stuttmynd sem var framleidd í aðdraganda sýningarinnar.

„Með þeim pening sem ég fékk frá galleríinu, framleiddum við í Félagi Borgara, fyrsta verkefnið. Það er stuttmyndin Wilma sem er Haukur Björgvinsson skrifar og leikstýrir. Við framleiddum myndina með því skilyrði að brot úr myndinni mætti nýta til að kynna borgarlaun,” segir Sæmundur.

Listamaðurinn gegn skrifræðinu

Félag Borgara dansar á mörkum listarinnar og heimsins þar fyrir utan. Nýtir sér rými listarinnar til að kynna og boða hugmyndir sem mætti kalla pólitískar. Það má segja að hérna sé listin að teygja sig út fyrir sitt hefðbundna rými og inn á svið raunverulegra stjórnmála, listamaðurinn þarf að kljást við skrifræðið til að fá að framkvæma gjörning sinn, stofna félag og standa fyrir happdrætti, og ef gjörningurinn er vel heppnaður mun hann hafa raunveruleg stjórnmálaleg áhrif.

„Ég hugsa oft um virkni listaverka burt séð frá því hvað þau myndgera. Ég heillast mjög mikið innviðalista (e. infrastructural art), af myndlist sem að hefur mjög beina virkni, hver sem hún er,” segir Sæmundur. „Auðvitað hefur allt einhverja virkni en ég er meira upptekinn af því hvernig hægt er að hanna virkni vísvitandi, ekki að hún komi bara óvart.”

Tengdar fréttir

Menningarefni

Hulinn heimur fólksins í gámunum

Tónlist

Verðlaunavæðing íslensks menningarlífs

Stjórnmál

Píratar leggja fram tillögu um borgaralaun

Stjórnmál

Borgaralaun gegn fátæktarvæðingu