Hagskælingar hljóta viðurkenningu Siðmenntar

04.06.2019 - 08:00
Mynd með færslu
 Mynd: Ingvar Þór Björnsson
Nemendur Hagaskóla hljóta Húmanistaviðurkenningu Siðmenntar árið 2019 fyrir framgöngu þeirra í baráttu gegn því að Zainab Safari og fjölskyldu hennar verði vísað úr landi. 

Siðmennt veitir á ári hverju Húmanistaviðurkenningu Siðmenntar, ásamt Fræðslu- og vísindaviðurkenningu. Einstaklingar og félagasamtök sem hafa lagt eitthvað mikilvægt af mörkum í anda húmanismans eiga möguleika á að hljóta viðurkenningar félagsins. 

Zainab Safari er fædd í Afganistan en flúði til Grikklands þar sem hún dvaldi í flóttamannabúðum. Hún kom til Íslands um mitt síðasta ár ásamt móður sinni og bróður. Fjölskyldan fær ekki dvalarleyfi á Íslandi á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar, en samkvæmt henni má senda umsækjendur aftur til þess Evrópulands sem þeir komu síðast til fyrir komuna til Íslands þar sem umsókn þeirra verði tekin til efnislegrar meðferðar. 

Skólafélagar hinnar 14 ára gömlu Zainab í Hagaskóla í Reykjavík tóku til sinna ráða og söfnuðu á sjöunda þúsund undirskrifta til stuðnings fjölskyldunni og færðu formanni kærunefndar útlendingamála og dómsmálaráðherra í mars. 

Á vef Siðmenntar segir að „réttlætiskennd, baráttuþrek og samkennd nemendanna“ beri vott um hugsjónir í anda húmanískra lífsgilda. Nemendurnir hafi sýnt mikið hugrekki í baráttunni fyrir því að skólasystir þeirra og fjölskylda hennar fái dvalarleyfi á Íslandi. Þeir hafi látið í sér heyra, safnað undirskriftum, mótmælt og haft hátt um réttindi Zainab og annarra barna í sömu stöðu. 

„Það er mat stjórnar Siðmenntar að unglingarnir hafi sýnt fram á mikla réttlætiskennd og samkennd og von okkar er að þau muni halda áfram að ganga í málin þegar þeim finnst brotið á réttindum samferðalanga sinna, “ segir á vef Siðmenntar.

Auk viðurkenningar styrkir Siðmennt nemendurna um 50.000 krónur sem rennur í málstað sem stendur þeim nærri. Nemendurnir kusu að láta styrkinn renna til félags um réttindi Safari-fjölskyldunnar og annarra í svipaðri stöðu. 

Sævar Helgi Bragason hlaut fræðslu- og vísindaviðurkenningu Siðmenntar fyrir starf sitt í þágu umhverfisverndar, vísindahyggju og barna- og ungmennafræðslu. 

solveigk's picture
Sólveig Klara Ragnarsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi