Hagræðingarkrafa á RÚV gæti aukist

Mynd með færslu
 Mynd:

Hagræðingarkrafa á RÚV gæti aukist

27.10.2013 - 18:14
Hagræðingarkrafa á Ríkisútvarpið gæti aukist, samþykki Alþingi tillögu Illuga Gunnarssonar menntamálaráðherra um að lækka framlag til RÚV, en minnka á móti skerðingar á auglýsingatekjum.

Illugi greindi frá tillögunni í þættinum Sunnudagsmorgni sem hóf göngu sína á RÚV og Rás 2 í morgun. 

Samkvæmt lögum um Ríkisútvarpið frá í vor á að þrengja að möguleikum RÚV til að afla auglýsingatekna, en á móti á útvarpsgjaldið að renna óskert til RÚV. Fjárlagafrumvarpið gerir aftur á móti ráð fyrir að hluti útvarpsgjaldsins renni í ríkissjóð. Á móti áttu að koma rúmlega 200 milljónir til að bæta RÚV upp skerðingar og viðbótarskuldbindinagr í nýju lögunum. Þetta hefði þýtt niðurskurðarkröfu upp á 5-7%

Menntamálaráðherra ætlar nú að leggja til við Alþingi að 200 milljóna króna uppbótin úr ríkissjóði verði sett í skólamál eða önnur verkefni. Á móti yrði hætt við hluta skerðingarinnar á auglýsingatekjum. 

Skerðing á auglýsingatekjum í lögunum er þríþætt og var metin á tæplega 400 milljónir króna. Þyngst, í krónum talið, vegur bann við kostun einstakra dagskrárliða, skerðing vegna hennar er metin 175 milljónir króna. Næst á eftir kemur bann við að rjúfa dagskrárliði með auglýsingum, það er metið á 150 milljónir króna. Að síðustu kemur að auglýsingar megi aðeins standa í átta mínútur á hverri klukkustund, í stað tólf mínútna áður, sú stytting er metin á 70 milljónir króna. Illugi segir að tillaga sín snúi að því að fjölga leyfilegum auglýsingamínútum aftur. Nákvæm útfærsla liggur ekki fyrir.

Illugi segir að 5-7% hagræðingarkrafan á RÚV myndi ekki minnka við breytinguna. „Og það getur vel verið að þetta verði til aukinnar hagræðingar, menn verða bara að sjá það. En þetta er ekki til þess að draga úr hagræðingarkröfunni, ég er hér að breyta um áherslur", segir menntamálaráðherra.

Tengdar fréttir

Stjórnmál

Íhugar að afnema skerðingar á auglýsingum