Hagkvæmt að bólusetja öll börn gegn inflúensu

04.03.2016 - 16:57
Víða er böngsum sérstaklega hampað á alþjóðlegum bangsadegi. Dagurinn valinn vegna afmælist Teodórs Roosevelts Bandaríkjaforseta sem enskumælandi þjóðir kenna bangsa við og kalla Teddy. Börnin á Laugasól höfðu bangsa með sér í skólann.
 Mynd: RÚV
Tíu til þrjátíu prósent barna fá inflúensu á hverju ári, þau liggja kannski í sjö til tíu daga og oft fá þau ýmsa aðra kvilla samhliða eða í kjölfarið; eyrnabólgu, lungnabólgu eða alvarlegar bakteríusýkingar. Börnin eru helstu smitberar flensunnar. Síðastliðin tvö ár hafa öll bresk börn verið bólusett við inflúensu. Valtýr Stefánsson Thors, barnasmitsjúkdómalæknir, telur að það gæti verið mjög gagnlegt og þjóðhagslega hagkvæmt að gera það sama hér.

„Ung börn eru í raun drifkraftur faraldursins á hverju ári og þau smita ekki bara hvert annað í daggæslu, leikskóla og skóla heldur líka foreldra sína og ömmur og afa. Ef okkur tækist að stöðva útbreiðslu meðal barna myndi það sennilega leiða til þess að útbreiðsla myndi líka stöðvast til fullorðinna sem eru kannski í mestri hættu á að fá alvarlega fylgikvilla.“

Dæmi um að börn séu lögð inn á gjörgæslu

Það er óalgengt að heilbrigð börn fái alvarlega fylgikvilla með inflúensusýkingu og sjaldgæft að inflúensa dragi þau til dauða. Sýkingin ógnar þeim þó líka. Í ár hafa nokkur börn sem ekki höfðu undirliggjandi sjúkdóma þurft að leggjast inn á spítala vegna inflúensusýkingar, þar af tvö á gjörgæslu. Sömuleiðis hafa nokkur langveik börn verið lögð inn á gjörgæslu með inflúensu. 

Flensan enn í sókn

Samkvæmt tölum Landspítalans frá því í síðustu viku er inflúensan enn á uppleið. Tíðnin er meiri en hefur verið undanfarin ár og er enn að aukast. Það er tilfinning Valtýs að toppnum verði ekki endilega náð í næstu viku. „Stundum eru inflúensufaraldrar tvítoppa,“ útskýrir hann. 

Íslensk börn sjaldan bólusett

Það heyrir til undantekninga að íslensk börn séu bólusett gegn inflúensunni og Valtýr segir að einhver misbrestur sé á því að langveik börn, sem helst þurfa á bólusetningunni að halda séu bólusett. 

„Þeim börnum og fjölskyldum þeirra er ráðlagt að fá inflúensubólusetningu en það er reyndar þannig að þrátt fyrir ráðleggingarnar hafa þau ekki öll fengið bólusetningu eins og ráðlagt er. Við læknarnir sem erum að sinna þessum fjölskyldum höfum kannski ekki verið nógu vakandi fyrir því að kalla þær í bólusetningu á haustin áður en faraldurinn fer af stað.“

En getur Valtýr fullyrt um hvort það sé þjóðfélagslega hagkvæmt að bólusetja öll börn í landinu á hverju ári.  

„Þetta er náttúrulega milljón dollara spurningin, þetta er kannski það sem oft á tíðum ræður hvort ákveðið er hvort það eigi að taka upp eitthvert bóluefni inn í okkar bólusetningarprógramm. Í löndunum í kringum okkur hafa verið gerðir útreikningar á þjóðhagslegri hagkvæmni þess að bólusetja öll börn. Bretar komust að þeirri niðurstöðu að það væri ráðlegt að gera þetta og þeir tóku þetta upp fyrir tveimur árum síðan og það hefur gengið vel hjá þeim. En allar þessar reikniformúlur sem eru notaðar eru augljóslega alltaf háðar þeim breytum sem við notum. Hvort við setjum inn í formúluna þá daga sem foreldrar missa frá vinnu og minni framleiðni vegna þess hvort við setjum inn kostnað við sýklalyf sem notuð eru við eyrnabólgunni sem oft fylgir og svo framvegis. Það er mitt mat að þetta geti verið hagkvæmt fyrir þjóðfélagið en fyrir mig skiptir mestu máli ef við getum komið í veg fyrir alvarleg veikindi hjá börnum, sem í fáum tilfellum geta leitt til dauða, ef okkur tekst að koma í veg fyrir það er sigurinn í rauninni unninn.“

Ættum að fylgjast átekta með Bretum

Allar aðgerðir geta haft aukaverkanir og það á líka við um bólusetningu gegn inflúensu. Helsta aukaverkunin er hiti í stuttan tíma eftir bólusetninguna. Börn sem veikjast af inflúensu liggja í mun lengri tíma og inflúensunni fylgja oft aukaverkanir. Valtýr telur því að heildarávinningur af bólusetningu vegi langtum þyngra en aukaverkanirnar. En hver eru næstu skref? Hyggjast læknar beita sér fyrir því að öll börn hér á landi verði bólusett?

„Ég hugsa að næstu skref verði að bíða átekta og fylgjast með hvernig Bretunum gengur. Þeir nota bóluefni sem er svolítið frábrugðið því sem við notum. Þeir nota lifandi bóluefni sem er veiklað og veldur ekki inflúensu en góðu ónæmissvari. Það er gefið sem nefúði og því enginn sársauki. Þetta efni hefur verið á markaði í tíu eða fimmtán ár og er talið veita góða vörn gegn inflúensu. Það sem verður mjög áhugavert að fylgjast með er hvaða áhrif þetta hefur á inflúensusýkingar meðal barna og fullorðinna á Bretlandi á næstu fimm til tíu árum. Í ljósi þess að við erum lítil þjóð er sennilega réttast að bíða átekta og sjá hvernig þetta kemur út hjá þeim. Ef þeir sjá fram á að þetta skili góðum árangra ætti þetta að fara hátt á forgangslistann hjá okkur og við ættum að taka þetta upp.“

 

Gengið illa að hitta á rétta stofna

Inflúensan breytir sér alltaf örlítið frá ári til árs, inflúensustofninn ferðast hringinn í kringum jörðina og kemur örlítið breyttur til baka, flensan getur því verið misskæð. Það þarf að sigta út réttu stofnana til að bólusetja gegn og það getur verið ákveðið lotterí. 

„Við framleiðsluna á inflúensubóluefninu þarf alltaf að áætla hvernig stofninn muni líta út árið eftir því það tekur sex til átta mánuði að framleiða bóluefnið. Maður veit aldrei nákvæmlega hvernig stofninn kemur til með að líta út þegar hann kemur árí síðar. Þetta hefur sum ár leitt til þess að bóluefnið passar ekki nægilega vel við stofnana sem eru ríkjandi hverju sinni. Þrátt fyrir það veitir það ákveðna vörn. Þó að undanfarin tvö ár hafi hittnin ekki verið sérlega góð hjá Alþjóðaheilbrigðisstofnuninni sem stýrir framleiðslunni þá ráðleggjum við fólki eindregið að sækja sínar bólusetningar," segir Valtýr

arnhildurh's picture
Arnhildur Hálfdánardóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi