Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Haförninn lítur ágætlega út en er veikburða

13.12.2017 - 11:30
Mynd með færslu
 Mynd: Freyr Arnarson - RÚV
„Haförninn var skoðaður á mánudaginn. Hann leit ágætlega út en er veikburða,“ segir Kristinn Haukur Skarphéðinsson, fuglafræðingur hjá Náttúrufræðistofnun Íslands. „Fyrirmælin eru bara að fóðra hann. Það er ekki að sjá að það sé neitt að honum. Ef fuglar lenda í áföllum og geta ekki veitt sér til matar þá verða þeir máttfarnir.“

Snorri Rafnsson veiðimaður fangaði örninn skammt fyrir utan Ólafsvík eftir að hafa fylgst með honum í nokkrar vikur og fór með hann í Fjölskyldu- og húsdýragarðinn um helgina. Þar er fuglinn nú í stóru búri. 

Kristinn segir að það hafi orðið fuglinum til lífs. „Hann hefði ekki getað bjargað sér sjálfur. Hann þarf að styrkja sig og læra þetta upp á nýtt. Það er ákveðið áfall fyrir fugla að vera teknir og settir í búr. Hann þarf nokkra daga til að jafna sig.“ 

Ungi frá því í sumar

Ekkert sé sjáanlega að haferninum og engin merki um sýkingar. Í slíkum tilvikum jafni fuglar sig oft eftir að hafa fengið fóður. „Þetta er ungi frá því í sumar. Það er algengt með fugla á fyrsta ári að þegar þeir eru fangaðir að ekkert sýnilegt virðist að þeim annað en að þeir eru kjánar. Þessi virðist vera í þeim hópi, að hann áttar sig ekki á því að það þurfi að hafa fyrir lífinu.“

Kristinn segir að þótt búrið sé stórt þá sé það ekki nógu stórt til að meta almennilega flughæfni hafarnarins. Það standi til að kanna flughæfni hans fljótlega. Þá verður teygjutaug fest í fuglinn og honum leyft að reyna að fljúga. 

Reynt að hafa fugla í haldi í stuttan tíma

Kristinn segir að tíminn verði að leiða í ljós hvernig gengur að fóðra hann. Reynt sé að hafa fugla sem skemmst í haldi því vöðvar þeirra rýrni. „Ef hann er farinn að éta vel á morgun þá ætti þetta að ganga. En það má ekki mata þá of mikið. Þeir verða að kunna listina að fóðra sig,“ segir Kristinn. Hafernir lifi á fuglum og fiski úti í náttúrunni og fúlsi við fáu. „Hann er alæta, allt er matur fyrir honum.“

 

Mynd: Freyr Arnarson / RÚV
Snorri Rafnsson kom með haförninn í Húsdýragarðinn á laugardag. Fréttastofan fór á staðinn og fylgdist með.