Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Haförn gæðir sér á fiski - myndband

09.01.2016 - 20:08
Fullorðinn haförn við Steitishvarf milli Breiðdalsvíkur og Berufjarðar. Myndina tók Yann Kolbeinsson 14. nóvember 2014.
 Mynd: Yann Kolbeinsson - RÚV
Hjónin Rannveig Haraldsdóttir og Gústaf Gústafsson sáu mikilfenglega sýn í dag, þegar þau voru á ferð um Patreksfjörð. Innst í firðinum komu þau auga á haförn sem sat í fjöruborðinu. Þau hægðu ferðina rólega, til að geta virt fuglinn fyrir sér án þess að styggja hann. Þau sáu örninn svo stinga sér eftir fiski, koma upp með flatfisk og éta hann í fjörunni skammt frá bíl þeirra. Þau náðu myndbandi af erninum.

 Rannveig segir að það hafi verið upplifun að sjá haförninn. Hún hafi tvisvar áður séð erni en þó alls ekki jafn nálægt og í dag. Þó hafa þau hjónin búið á Patreksfirði í 30 ár.

Haförn er meðal stærstu fugla hér á landi og einn sjaldgæfasti varpfuglinn. 73-74 varppör voru í stofnunum sumarið 2014. Vænghaf hafarnar getur orðið rúmir tveir metrar. Fuglarnir vega fjögur til sjö kíló.