Hafnarfjarðarbær ræðir við Strætó

22.05.2015 - 18:12
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Hafnarfjarðarbær ætlar að kanna hvort hægt sé að rifta samningi um ferðaþjónustu fatlaðs fólks á höfuðborgarsvæðinu vegna forsendubrests. Kostnaðurinn stefnir í að verða þrefalt meiri í bæjarfélaginu en áætlað var.

 

Fjölskylduráð Hafnarfjarðar ræddi í morgun minnisblað frá sviðsstjóra fjölskylduþjónustu Hafnarfjarðar um ferðaþjónustu fatlaðs fólks. Þar kemur fram að út frá forsendum sem Strætó gaf hafi verið gert ráð fyrir kostnaði upp á 73 milljónir króna á þessu ári.

Nú stefnir í að kostnaðurinn verði næstum þrefalt meiri, eða 205 milljónir. Kostnaður á hverja ferð hafi tvöfaldast fyrstu þrjá mánuði þessa árs og hann hafi aukist mun meira í Hafnarfirði en í öðrum sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu.

Þegar málið kom fyrst til umræðu í mars taldi Strætó að kostnaðurinn í Hafnarfirði myndi dragast saman þegar liði á árið. Í minnisblaðinu kemur fram að það hafi ekki gerst. Nú fullyrði Strætó að kostnaðurinn dragist ekki saman á árinu.

Í minnisblaðinu er meðal annars lagt til að rætt verði við strætó um forsendur kostnaðar, óskað eftir lögfræðiáliti um stöðu Hafnarfjarðar gagnvart strætó og að kannaður verði möguleiki á að rifta samningi um sameiginlega ferðaþjónustu á höfuðborgarsvæðinu vegna forsendubrests. Fjölskylduráð Hafnarfjarðar hefur falið sviðsstjóra að vinna áfram í málinu á grundvelli þessara tillagna.

hallgrimur's picture
Hallgrímur Indriðason
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi