Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Hafa til klukkan tvö að skila vél WOW

06.05.2019 - 10:13
Mynd með færslu
 Mynd:
Bandaríska flugvélaleigufyrirtækið ALC hefur greitt 87 milljón króna skuld við Isavia vegna kyrrsettrar vélar sem WOW air hafði á leigu og krefst þess að fá hana afhenta fyrir klukkan 14. Flugfélagið fór á hausinn fyrir skömmu en þá nam skuld þess við Isavia um tveimur milljörðum króna. Isavia hafði kyrrset vélina vegna skuldarinnar.

Upphæðin sem greidd var er í samræmi við útreikninga lögfræðinga ALC varðandi þessa tilteknu skuld. Héraðsdómur Reykjaness komst að þeirri niðurstöðu á fimmtudag að heimilt væri að aftra för flugvélarinnar vegna gjalda sem tengjast vélinni sjálfri. Isavia hafði kyrrset vélina vegna tveggja milljarða skuldar hins fallna flugfélags við fyrirtækið.

Í samtali við fréttastofu sagði Oddur Ástráðsson lögmaður ALC að búið væri að greiða gjöld sem tengdust vélinni sem er í eigu flugvélaleigunnar. Um er að ræða tvær skuldir, upp á rúmar 55 milljónir og aðra upp á rúmar 31 milljón króna. Upphæðin var lögð inn á reikning Isavia.

„Þeir eiga næsta leik. Við teljum að kæra þeirra á fyrri úrskurði hafi ekkert gildi í málinu,“ sagði Oddur. Isavia var veittur frestur til klukkan 14 í dag að láta vélina af hendi.

Mynd með færslu
 Mynd: Grímur Jónsson - RÚV
Oddur Ástráðsson lögmaður ALC.