Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Hafa tekið væntanlega söluskrifstofu á leigu

23.12.2019 - 14:57
Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson - RÚV
Félagið WOW air 2.0 hefur tekið á leigu húsnæði í miðborg Washingtonborgar í Bandaríkjunum. Þar stendur til að hýsa söluskrifstofu og vera með aðstöðu fyrir viðskiptavini þar sem hægt verði að fá sér kaffibolla og kanna framboð félagsins. Þetta segir Gunn­ar Steinn Páls­son, almannatengill nýja flugfélagsins. „Það verður að minnsta kosti heitt á könn­unni þarna all­an dag­inn.“

Mbl.is greinir frá. Það hlýtur að verða kannað að opna söluskrifstofu á vegum flugfélagsins í Reykjavík, segir Gunnar Steinn segir í samtali við fréttastofu Mbl.is. Forsvarsmenn félagsins vilji þó ekki ræða nánar um einstök atriði í undirbúningsferlinu. 

Gunnar Steinn segir að stefnt sé að því að söluskrifstofan verði opnuð skömmu fyrir jómfrúarferð félagsins. Nú styttist í að nýja WOW air taki á loft, segir hann. Biðin sé talin í vikum fremur en mánuðum. 

Upphaflega stóð til að fyrsta ferð félagsins yrði í byrjun október og yrði þá flogið frá Keflavíkurflugvelli til Washington. Ferlið við endurreisnina hefur hins vegar gengið hægar en vonast var til. Gunnar Steinn segir að það hafi verið flóknara en gert var ráð fyrir. Þá hafi aðstæður á samkeppnismarkaðnum breyst mikið á undanförnum mánuðum. Það sé eitthvað sem þurfi að skoða nánar.