Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Hafa svigrúm til tjáningar en með takmörkunum

01.08.2019 - 18:00
Mynd: RÚV - Hjalti Haraldsson / RÚV - Hjalti Haraldsson
Steinunn Þóra Árnadóttir, nefndarmaður í forsætisnefnd Alþingis, segir að með birtingu niðurstöðu forsætisnefndar sé þeirra vinnu lokið í málinu. Nú liggi það fyrir að þingmenn hafi talsvert svigrúm til þess að tjá sig um einstaklinga og málefni með ansi beinskeyttum hætti. Hins vegar séu mörk á því hvar og hvernig megi segja hluti. Þingmenn hljóti að taka tillit til þess, sér í lagi þeir sem taldir voru brjóta gegn siðareglum.

Steinunn Þóra segir að forsætisnefndin hafi ekki bætt neinu við niðurstöðu siðanefndar, eða dregið neitt til baka. Hún segir að hægt hefði verið að ganga lengra en að þau hafi metið það sem svo að réttast væri að fallast á niðurstöðu siðanefndar eins og hún lagði sig. 

Forsætisnefnd Alþingis, skipuð þeim Steinunni og Haraldi Benediktssyni, varaforsetum Alþingis, féllst á niðurstöðu siðanefndar Alþingis í Klaustursmálinu fyrr í dag.

Siðanefnd taldi Bergþór Ólason og Gunnar Braga Sveinsson hafa brotið gegn siðareglum með ummælum sínum. Þingmennirnir Anna Kolbrún Árnadóttir, Karl Gauti Hjaltason, Ólafur Ísleifsson og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson hefðu ekki gerst brotleg við siðareglur.

Birgir Þór Harðarson fréttamaður ræddi við Steinunni Þóru Árnadóttur. Hægt er að horfa á viðtalið í spilaranum hér fyrir ofan. 

Fréttin hefur verið uppfærð.