Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Hafa sagt upp 3.100 starfsmönnum undanfarið

10.11.2018 - 08:41
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Aðildarfyrirtæki í Samtökum atvinnulífsins (SA) hafa sagt upp 3.100 starfsmönnum síðustu þrjá mánuði, ef marka má könnun Maskínu sem unnin var fyrir SA.

Í niðurstöðum könnunarinnar kemur einnig fram að sömu fyrirtæki hyggja á frekari uppsagnir á næstu mánuðum. Morgunblaðið greinir frá niðurstöðunum í dag.

Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri SA, segir í samtali við Morgunblaðið að of snemmt sé að fullyrða hvað þessar niðurstöður þýði. Mikilvægt sé að hagsmunaaðilar vandi sig í umræðu um vinnumarkaðsmál. Ef dregnar séu of miklar ályktanir geti það skapað ýkt viðbrögð markaðarins.

Niðurstöður kannanarinnar eru settar fram með fyrirvara um að fjöldi nýráðninga síðustu mánuði var ekki kannaður og þess vegna sýnir hún ekki hversu mikil fækkun starfa á markaði hefur eða getur orðið.

Fyrirtæki í útflutningi eru líklegri til þess að fækka starfsfólki á næstu 30 dögum en þau fyrirtæki sem starfa aðeins á heimamarkaði. Áform fyrirtækja, hvort sem þau eru í útflutningi eða starfi aðeins á heimamarkaði, eru svipuð þegar litið er 90 daga fram í tímann.

Könnunin var send á rúmlega 1.700 forsvarsmenn aðildarfélaga SA til þess að kanna hvort breytingar hafi orðið á fjölda uppsagna starfsmanna milli ára. 600 fyrirtæki svöruðu könnuninni.

birgirthh's picture
Birgir Þór Harðarson
Fréttastofa RÚV