Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Hafa litla trú á fagmennsku fjölmiðla

28.10.2018 - 09:30
Staflar af dagblöðum.
 Mynd: Gesine Kuhlmann - RGBStock
Tiltrú stjórnmálamanna á að umfjöllun landsdekkandi fjölmiðla um stjórnmál ráðist af almennum faglegum sjónarmiðum var ekki ýkja mikil fyrir og í kringum síðustu Alþingis- og sveitarstjórnarkosningar, samkvæmt könnunum Birgis Guðmundssonar, dósents við félagsvísindadeild Háskólans á Akureyri.

Einungis 17% stjórnmálamanna töldu umfjöllunina faglega í sveitarstjórnarkosningunum 2018 en aðeins fleiri, eða 27%, töldu hana faglega í Alþingiskosningunum 2016/17, sem var töluverð aukning frá því í Alþingiskosningunum 2013 þegar aðeins 9% stjórnmálamanna sögðust hafa trú á faglegum vinnubrögðum fjölmiðlanna í umfjöllun um stjórnmál.

Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Guðmundsson

Í könnuninni kemur einnig fram 15% stjórnmálamanna töldu fjölmiðla hlutlausa gagnvart stjórnmálaflokkum í sveitarstjórnarkosningunum 2018 og 17% þeirra töldu fjölmiðla hlutlausa í Alþingiskosningunum 2016/17. Traustið jókst aðeins milli Alþingiskosninganna árið 2013 og 2016/17 en minnkaði milli sveitarstjórnarkosninga árið 2014 og 2018.

Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Guðmundsson

Kjósendur líka tortryggnir

Birgir ræddi þessar niðurstöður á Þjóðarspeglinum í Háskóla Íslands á föstudag. Hann gerði einnig könnun á trausti kjósenda í garð fjölmiðla í desember 2015. Þá töldu aðeins um 24% kjósenda að umfjöllun landsdekkandi fjölmiðla um stjórnmál réðust af almennum faglegum sjónarmiðum blaðamennsku en 41% töldu svo ekki vera. 35% voru hlutlaus.

Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Guðmundsson

Ástæða fyrir blaðamenn að íhuga niðurstöðurnar

Í samtali við fréttastofu RÚV sagði Birgir það koma dálítið á óvart hvað pólitísk fjölmiðlum virðist sterk í skynjun þjóðarinnar, bæði meðal kjósenda og stjórnmálamanna og jafnt á landsvísu og í sveitarstjórnum. „Landsdekkandi miðlar eru taldir hlutdrægir og háðir stjórnmálaflokkum, og mjög margir, bæði stjórnmálamenn og kjósendur, hafa ekki trú á að fagleg sjónarmið blaðamennsku ráði umfjöllun fjölmiðla um stjórnmál. Arfleið flokksblaðanna virðist enn sterk þó formið hafi breyst, og samþjöppun eignarhalds á fjölmiðlum síðastliðinn einn og hálfan áratug er greinilega tengd við pólitískar blokkir. Þó einstakir miðlar komi misjafnlega út, og hér sé meðal annars verið að tala um viðhorf stjórnmálamanna sem oft hafa tilhneigingu til að telja fjölmiðlaumfjöllun sér óhagstæða, þá er ástæða fyrir fagstétt blaðamanna að íhuga þessar niðurstöður. Þær benda ekki til að fagmennska blaðamanna, sem ætti að birtast í nákvæmni, jafnvægi og sanngirni, njóti almenns trausts."

Auður Aðalsteinsdóttir