Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Hafa ítrekað beðið stjórnvöld um aðstoð

10.05.2016 - 18:14
OLYMPUS DIGITAL CAMERA
 Mynd: RÚV / Kristín Sigurðardóttir
Það kostar á fjórða hundrað milljónir króna að ráðast í brýnustu framkvæmdir svo byggðin við Mývatn uppfylli reglur um fráveitu. Þetta er Skútustaðahreppi ofviða og aðkoma ríkisins því nauðsynleg.

Árið 2012 tók gildi ný reglugerð um verndun Mývatns og Laxár og um leið voru gerðar auknar kröfur um frárennsli frá byggð við vatnið. Þetta þýddi að skólpkerfi í þéttbýli stóðst ekki lengur reglur um fráveitu. Frá þessum tíma hefur Skútustaðahreppur undirbúið breytingar og metið kostnað við þær.

Þriggja þrepa skólphreinsistöð við Reykjahlíðarþorp

Það er talið brýnast að koma upp þriggja þrepa skólphreinsistöð við Reykjahlíðarþorp og tvö nærliggjandi hótel. Skútustaðahreppur vill fá ríkið til að taka þátt í þessum framkvæmdum. „Áætlaður kostnaður er rúmar 300 milljónir og gert ráð fyrir að rekstrarkostnaðurinn sé á bilinu 7-10 miljónir á ári,“ segir Jón Óskar Pétursson sveitarstjóri. Þetta sé sveitarfélaginu ofviða og því sé eina leiðin að fá stjórnvöld að borðinu. Það sé mikið í húfi, enda Mývatn einstakt og um það gildi sérstök lög sem setji heimamönnum auknar kröfur á herðar.

Hvergi verið að veita skólpi beint í vatnið

Á dreifbýlli svæðum við vatnið gera yfirvöld ekki kröfu um þriggja þrepa skólphreinsun. Þar eru rotþrær heima við alla bæi og árið 2006 var gerð ítarleg úttekt á því kerfi af Heilbrigðiseftirliti Norðurlands eystra. Þá segir Jón að nýjum hótelum við vatnið sé gert að setja upp þriggja þrepa hreinsistöðvar. „Það er alveg klárt að það er hvergi með markvissum hætti verið að veita skólpi út í Mývatn. Og hér er engin veita, skólpveita út í vatnið. Það er langur vegur þar frá,“ segir Jón Óskar.