Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Hafa hætt vegna ríkislögreglustjóra

13.09.2019 - 09:12
Mynd með færslu
 Mynd: Guðmundur Bergkvist - RÚV
Dæmi eru um að menn hafi stigið til hliðar og farið í önnur störf innan lögreglunnar vegna framgöngu Ríkislögreglustjóra segir Arinbjörn Snorrason, formaður Lögreglufélags Reykjavíkur. Hann segir nauðsynlegt að Haraldur Johannessen, ríkislögreglustjóri, stígi til hliðar á meðan Ríkisendurskoðun gerir stjórnsýsluúttekt á embættinu.

Landssamband lögreglumanna og nokkur félög innan þess hafa gagnrýnt Ríkislögreglustjóra undanfarið. Arinbjörn segir lögreglumenn hafa verið óánægða með þætti í rekstri embættisins undanfarna áratugi.

„Það eru ýmsir þættir sem ég get ekki nefnt þar sem þetta eru innri málefni löggæslunnar sem menn hafa verið að ræða. Það sem snýr að rekstrinum út á við eru þetta eins og bílamálin, fatamál og ýmis þjónustuverkefni sem liggja hjá Ríkislögreglustjóra. Síðan eru ýmis verkefni eins og verklagsreglur. Það þarf að endurskoða allar verklagsreglur þannig að þær séu í nútímanum og fylgji breytingum í þjóðfélaginu,“ segir Arinbjörn.

Af og frá að gagnrýnin snúist um valdabaráttu

Arinbjörn segir að gagnrýnin sé ekki til komin vegna valdabaráttu og togstreitu um fjármuni. „Ég held að það sé af og frá að þetta sé einhver valdabarátta. Það hefur verið nefnt að menn sláist um fjármagn inn í reksturinn og sjái ofsjónir yfir því hvað það farið mikið fjármagn inn í embætti ríkislögreglustjóra. Ég get ekki dæmt um það,“ segir Arinbjörn.

„Mörg félaganna hafa í gegnum tíðina haft áhyggjur af því að embættið fari ekki fram með meiri eftirfylgni eftir gerð áætlana um löggæsluþörfina. Hún hefur nokkrum sinnum verið lögð fram og við sjáum að það vantar töluvert mikið upp á,“ segir Arinbjörn og bætir við að talsvert óánægja sé með það að það sé ekki meiri eftirfylgni frá embættinu varðandi þessar greiningar.

Haraldur stígi til hliðar á meðan ríkisendurskoðun gerir úttekt

Arinbjörn segir óánægjuna vera það mikla með störf Ríkislögreglustjóra að réttara væri að hann myndi stíga til hliðar á meðan ríkisendurskoðun gerir stjórnsýsluúttektina. Þá myndu fleiri vilja ræða mál sín opinskátt.

„Eins og þessu hefur verið lýst fyrir okkur þá hefur starfsmönnum sem leita til hans eða verið með erindi ítrekað verið kynnt að ef þeir sitji og standi ekki eins og Ríkislögreglustjóri óskar eftir þá skuli þeir hugsa sinn gang,“ segir Arinbjörn.

„Við þekkjum dæmi þar sem menn hafa stigið til hliðar og jafnvel bara farið í annað starf innan lögreglunnar. Það er þannig í öllum fyrirtækjum að ef menn finna að þeir eru farnir að ganga á veggi breyta sumir um kúrs á meðan aðrir halda áfram að ganga á veggi.“