Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Hafa ekki íslenskukunnáttu í samræmi við aldur

13.01.2019 - 14:24
Mynd:  / 
Elín Þöll Þórðardóttir, prófessor í málvísindum við McGill háskóla í Montréal í Kanada, segir að íslenskukunnátta barna sem eiga erlenda foreldra sé ekki nógu góð. Rannsóknir hafi sýnt það síðustu ár. Þau standa höllum fæti í samanburði við jafnaldra sína og fái því ekki jöfn tækifæri.  

Kemur fram í brottfalli úr framhaldsskóla

Rætt var við Elínu í Silfrinu í dag. Þar sagði hún að tvítyngd börn hér á landi komi verr út í PISA könnunum en börn í nágrannalöndunum og sömuleiðis í mælingum á málkunnáttu á íslensku. „Hún er miklu lakari en búast mætti við samkvæmt rannsóknum í öðrum löndum þar sem krakkar tala eitt mál heima og annað í skóla. Svoleiðis kemur ekki sérstaklega mikið fram á meðan þau eru í grunnskóla, því á Íslandi fer maður alltaf upp um bekk, maður heldur alltaf áfram. En þetta kemur fram seinna sem mikið brottfall úr framhaldsskóla. Maður hefur áhyggjur af því að þessir krakkar hafi mjög skert tækifæri vegna þess að þau hafa ekki íslenskukunnáttu sem hentar þeirra aldri.“ 

Elín segir að þetta eigi jafnvel við um krakka sem tali íslensku með réttum framburði og beygingum og geti vel haldið uppi samræðum.  „En það þýðir ekki að þau hafi málkunnáttu sem hæfir unglingum og fullorðnu fólki. Hafi orðaforða, skilning á flóknum setningategundum. Þannig að þótt þau tali sjálf rétt þá tala þau einfaldara mál.“

Hafa ekki djúpa þekkingu á tungumálunum

Elín segir að hún gert rannsókn á ungmennum í áttunda til tíunda bekk þar sem hún mældi íslenskukunnáttu þeirra, enskukunnáttu og tungumálið sem þau tala heima. Hún hafi beðið unglingana sjálfa um að meta sig og einnig foreldra þeirra. Munur hafi komið fram á unglingum sem tala annað tungumál heima. „Það sem veldur mér svo miklum áhyggjum er að þessir krakkar sem eru að klára grunnskólann og halda út í lífið er að þau hafa ágæta kunnáttu á öllum tungumálum og geta haldið uppi samræðum en hafa ekki djúpa kunnáttu á neinu þessara tungumála.“

Meiri munur hafi komið fram í tungumálaþekkingu unglinganna sem tala íslensku heima hjá sér.  „Þau kunna ensku mun verr en þau kunna íslensku og þau hafa þennan flókna orðaforða í íslensku. Hinir krakkarnir hafa hann ekki á neinu tungumáli. Þótt það sé gott að þau séu margtyngd, og þau kunni þrjú tungumál sem er mjög gott, þá er fórnarkostnaðurinn hugsanlega of mikill. Það þarf að leiðrétta þetta til þess að þau eigi framtíðarmöguleika. Hvar eiga þau að læra og á hvaða máli?“

„Verða að læra íslensku“

Elín segist viss um að allir séu af vilja gerðir til að koma til móts við þennan hóp. „Það sem ég held að við þurfum kannski að breyta er að átta okkur á því mjög skýrt að krakkar á Íslandi verða að læra íslensku. Það er mikið talað um móðurmál og mikilvægi þess og ég er sammála því að mikilvægt sé að tala móðurmál foreldra sinna til þess að tengjast uppruna sínum.“ 

Hér á landi eru töluð yfir hundrað tungumál. Elín segir að skólarnir þurfi fyrst og fremst að sinna tungumáli samfélagsins. Til þess að læra tungumál þurfi að verja tíma til þess. „Þau hafa ekki nægilegan tíma til þess að læra íslensku í skólanum. Þegar þau fá sérkennslu eru þau tekin úr tíma í stað þess að aukatíminn bætist við. Þau eru oft tekin úr matreiðslu sem er slæmt að því leyti að það er oft þá sem krakkar geta talað mest saman. Aukatíminn þyrfti að bætast ofan á.“ 

Mýta að íslenska sé erfið

Elín segir það vera mýtu að erfitt sé að læra íslensku. Hún tók viðtöl við unglinga um þetta. Unglingar með íslensku að móðurmáli sögðust viss um að erfitt væri að læra íslensku vegna þess að málið væri hvasst og flókið. Unglingar með íslensku sem annað mál hafi ekki verið sama sinnis. Þau hefðu talað um að það væri leiðinlegt að vera stöðugt leiðrétt eða að þeim væri svarað á ensku. „Þessi hugmynd um að íslenska sé svo sérstök og ólæranleg, hún er mýta. Við sjáum það líka á því að yfir helmingur barna sem hafa íslensku sem annað mál standa höllum fæti en það er næstum því helmingur þeirra sem stendur mjög vel og það segir okkur að þetta er hægt.“

Hægt er að horfa á allt viðtalið við Elínu í spilaranum hér fyrir ofan. 

Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV