Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Hafa beðið í 580 daga eftir hjúkrunarrými

13.12.2018 - 21:35
Þegar biðin eftir hjúkrunarrými tekur enda þá getur maki verið búinn með sitt, segir dóttir hjóna á Ísafirði sem hafa beðið hátt í tvö ár eftir hjúkrunarrými. Þrátt fyrir langa bið eru engin áform um að fjölga hjúkrunarrýmum á Vestfjörðum.

Hugsar um konu sína heima

Gunnlaugur og Lára hafa verið gift í 65 ár. „Giftumst 12. desember 1953 og höfum búið á Ísafirði alla tíð síðan,“ segir Gunnlaugur. Gunnlaugur hefur haldið heilsu þótt hann hafi misst sjón og heyrn en Lára fékk heilablæðingar sem tóku skammtímaminnið. Hún hefur verið á biðlista eftir hjúkrunarrými á Ísafirði í hátt í tvö ár. Á meðan býr hún heima en hefur fengið hvíldarinnlögn annað slagið. „Nú erum við komin heim aftur og ætlum að prófa, getum við búið heima, get ég klárað mig. En það þarf svo lítið útaf að bregða. Þá er voðinn vís,“ segir Gunnlaugur. „Mér finnst ég hafa klárað mig en sumum aðstandendum finnst að þetta sé ekki nógu öruggt,“ segir Gunnlaugur.

Hafa áhyggjur af pabba sínum

„Við kannski sjáum aðeins aðra mynd en pabbi. Og okkar áhyggjur beinast kannski svolítið að honum. Því það er náttúrlega gífurlegt álag að sjá um tvo. Tala nú ekki um þegar maður er orðinn 88 ára gamall,“ segir Sigríður Lára Gunnlaugsdóttir, dóttir Gunnlaugs og Láru.

Fólk af legudeild ganga fyrir

Í fréttum RÚV hefur komið fram að biðtími eftir hjúkrunarrými er einna lengstur á Vestfjörðum. Á biðlista er fólk í brýnni þörf og sem hefur fullnýtt önnur úrræði en fólk sem að hefur verið á legudeild í sex vikur eða lengur gengur fyrir. „Af þeim níu sem að hafa komist hingað inn í ár hafa sex komist inn eftir að hafa verið í sex vikur eða lengur á legudeild, það að hafa verið á legudeild svona lengi trompar hin stigin,“ segir Gylfi Ólafsson, forstjóri Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða.

Biðin getur gengið á maka

„Sem heilbrigðisstarfsmaður þá hef ég bara í gegnum tíðina þá hef ég bara séð þessar aðstæður áður, fólk bíður og er búið með sitt þegar loksins er komin lausn á málinu,“ segir Sigríður Lára, dóttir Gunnlaugs og Láru.

Engin áform um fjölgun hjúkrunarrýma

Ný hjúkrunarheimili voru opnuð á Ísafirði og í Bolungarvík árið 2015 en Gylfi segir þau hreinlega ekki duga. Þrátt fyrir það, og langan biðtíma, er ekki gert ráð fyrir fjölgun hjúkrunarrýma á Vestfjörðum fram til ársins 2023. „Sú vinna fer í gang nú strax eftir áramót að gera nýja áætlun sem gildir þá til næstu fimm ára og við munum tryggja það að okkar rödd heyrist í þeirri vinnu,“ segir Gylfi.