Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Hafa áhyggjur af fólksfækkun í Strandabyggð

14.03.2018 - 13:00
Hólmavík Strandir Vestfirðir
 Mynd: Jóhannes Jónsson - ruv.is
Hugmyndir sem fram komu á íbúafundi í Strandabyggð verða mikilvægt veganesti fyrir starfandi og komandi sveitarstjórn, segir sveitarstjóri. Íbúar hafa áhyggjur af fólksfækkun í sveitarfélaginu sem sveitarstjóri rekur helst til skorts á atvinnutækifærum.

 

Vestfirðingum fjölgar en ekki alls staðar

Íbúum Vestfjarða fjölgaði á síðasta ári um 110. Bolvíkingum fjölgaði um 40 og Ísfirðingum um 100. Hins vegar fækkaði íbúum tveggja sveitarfélaga; Vesturbyggðar um tíu og Strandabyggðar um tuttugu. Andrea Kristín jónsdóttir, sveitarstjóri Strandabyggðar, telur að fólki hafi farið fækkandi frá árinu 2013 þá voru íbúarnir 518: „Ætli það sé ekki síðustu tvö árin sem að stóra stökkið varð, sem að okkur fækkaði sem mest. Og nú erum við komin niður í 450 sem er töluverður biti fyrir lítið sveitarfélag.“

Skortir atvinnutækifæri

Andrea segir að fólk flytji í þorpið en að þeir sem flytjist á brott séu einfaldlega fleiri. Þar muni sérstaklega um stórar fjölskyldur. Það séu gjarnan fjölskyldur með börn á grunnskólaaldri sem eru jafnvel að komast á framhaldsskólaaldur, fjölskyldur sem leita tækifæra annað, það sé biti að missa hverja fjölskyldu og fljótt að saxast á: „Fólk hefur náttúrlega áhyggjur af því og hvað það er sem veldur. Það er ábyggilega margt sem kemur til, kannski ekki síst atvinnutækifæri. Og okkur vantar kannski helst fleiri atvinnutækifæri hérna svo það sé meiri fjölbreytni í atvinnulífinu sem heldur fólk hér heima.“

Fólk fylgi börnum í framhaldsskóla

Andrea segir að einhverjir flytjist á brott til að fylgja börnum í framhaldsskóla. Á Hólmavík er boðið upp á dreifnám, í samvinnu við Fjölbrautaskóla Norðurlands Vestra á Sauðárkróki, fyrstu tvö árin í framhaldsskóla en þrátt fyrir það eru alltaf einhverjir sem að fylgja börnum sínum í framhaldsskóla og Andrea telur foreldra almennt vilja fylgja börnum sínum betur eftir en tíðkaðist áður fyrr.

Íbúafundur vegna áhyggja íbúa

Vegna áhyggja íbúa var boðað til íbúafundar á Hólmavík á mánudaginn. Um fimmtíu manns sóttu fundinn, sveitarstjóri fór yfir aðgerðir sveitarfélagsins og þá var blásið til hugmyndavinnu um hvernig snúa megi vörn í sókn, segir Andrea. Hún segir að hitaveita sé meðal þess sem brenni á íbúum en viðvera sjúkraþjálfara, bætt íþróttaaðstaða og bætt geðheilbrigðisþjónusta var einnig meðal hugmynda. Enn á eftir að taka saman niðurstöður fundarins en Andrea segir að þær verði mikilvægt veganesti fyrir núverandi og komandi sveitarstjórn - til að efla byggð í ljósi vilja íbúa.