Hafa áhyggjur af dæmdum ofbeldismönnum

22.04.2013 - 20:28
Mynd með færslu
 Mynd:
Rótin- félag um málefni kvenna með áfengis-og fíknivanda sendi landlækni í morgun erindi um öryggi kvenna á meðferðarstöðum. Í erindinu er lýst yfir verulegum áhyggjum af því að dæmdir ofbeldismenn hafi aðgang að ungum konum og veiku fólki almennt, innan heilbrigðiskerfisins.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá félaginu. Þar er meðal annars vísað í dóm yfir Jens Hjartarsyni, sem var um miðjan þennan mánuð dæmdur í átta ára fangelsi fyrir hrottalega nauðgun og líkamsárásir gegn þremur ungum konum.  Í þeim dómi kom meðal annars fram að Jens hefði kynnst einu fórnarlambinu, átján ára stúlku, í áfengismeðferð.

Í erindinu, sem landlæknir fékk í morgun, kemur jafnframt fram að líta verði til þess að stór hluti kvenna sem komi til meðferðar eigi ofbeldissögu að baki. Sú staðreynd geri þennan hóp enn veikari fyrir hvers kyns valdbeitingu. 

Rótin krefst því að skapaðar verði aðstæður inni í heilbrigðiskerfinu til að konu geti leitað sér meðferðar við alkahólisma „án þess að eiga það á hættu að lenda í klóm ofbeldismanna,“ eins og það er orðað.

Rótin var stofnað í mars á þessu ári eftir að stofnfélögum varð ljós að Kvenfélagi SÁÁ væri ekki lengur vært innan SÁÁ. Í ráði rótarinnar sitja meðal annars Guðrún Ebba Ólafsdóttir og Ilmur Kristjánsdóttir.

Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi