Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Hættustigi lýst yfir vegna Skaftárhlaups

01.10.2015 - 16:40
Mynd með færslu
Kristín Sigurðardóttir, fréttamaður, tók þessa mynd við jökulsporðinn í dag. Mynd: Kristín Sigurðardóttir - RÚV
Almannavarnir hafa lýst yfir hættustigi vegna Skaftárhlaups. Veðurstofan telur að hlaupið verði eitt það stærsta úr Skaftárkötlum. Veðurfar undanfarinna daga með mikilli úrkomu veldur aukinni óvissu um áhrifasvæði flóðsins. Fréttamaður RÚV var við jökulsporðinn þar sem jökulhlaupið frussaðist út.

Fram kemur í tilkynningu frá Almannavörnum að hlaupið hafi aukist hraðar en sést hafi í fyrri hlaupum.  

Kristín Sigurðardóttir, fréttamaður, ásamt Vilhjálmi Þór Guðmundssyni, tökumanni, fóru að jökulsporðinum um hádegisbil í dag. Þau fóru frá skálanum við Sveinstind, keyrðu í einn og hálfan tíma og gengu í tvo tíma.

Þegar þau komu að jökulsporðinum sáu þau jökulhlaupið frussast út undan jöklinum með miklum látum. „Og það óx stöðugt þegar við vorum þarna og það brotnuðu úr stórir jakar sem bárust út með fljótinu.“ segir Kristín en aðstæður fyrir vísindamenn sem þarna voru að mæla eru erfiðar - úrhellisrigning og sífellt nýjar sprungur í jöklinum að opnast. 

Fram kemur í tilkynningu frá Almannavörnum að hlaupið geti komið fram undan Tungnaárjökli, Skaftárjökli í Skaftá eða undan Síðujökli í Hverfisfljót. 

Ríkislögreglustjóri og lögreglan á Suðurlandi ráðleggja ferðafólki frá því að vera nálægt upptökum Skaftár og Hverfisfljóts og við bakka þeirra.  Brennisteinsvetnismengun getur skaðað slímhúð í öndunarfærum og augum auk þess sem árnar geta flætt yfir bakka sína og vegi sem liggja þeim nærri. 

Hættustig þýðir að ef hætta fer vaxandi verður að grípa til tafarlausra ráðstafana til að tryggja sem best öryggi þeirra sem á svæðinu búa eða dvelja. Slíkt er gert með því að efla viðbúnað neyðar- og öryggisþjónustu á viðkomandi svæði, ásamt því að grípa til fyrirbyggjandi aðgerða s.s. rýmingar, brottflutnings eða lokunar svæða. Einnig eru leiðbeiningar og viðvaranir einkennandi fyrir þetta stig.

Starfsmenn Veðurstofu Íslands og lögreglumenn á Suðurlandi fylgjast náið með framvindunni á svæðinu.

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV