Athugið þessi frétt er meira en 10 ára gömul.

Hættuleg réttlæting

07.03.2012 - 09:27
Mynd með færslu
 Mynd:
Helgi Gunnlaugsson afbrotafræðingur segir umræðu í þjóðfélaginu um skuldir og skuldavanda mjög óvægna, en ekki megi tengja einstakt voðaverk við hana. Það geti boðið hættunni heim.

Hann segir að ef verknaður sem þessi skýrðist af þjóðfélagslegri spennu væri mikil aukning á ýmisskonar ofbeldisverkum í samfélaginu, það sé hinsvegar ekki raunin. Hann segir að ef skoðuð eru þau ofbeldisverk sem komið hafa á borð lögreglunnar frá 2008 og fram á þennan dag, komi í ljós að ofbeldisverkum hefur fækkað. Þetta eigi hvort heldur við um minni háttar meiðingar og alvarlegri árásir. Það sé því mjög langsótt að tengja þennan atburð við ástandið í þjóðfélagi okkar.

Helgi segist það hinsvegar geta boðið hættunni heim að búa til slíkar skýringar. Þá sé hugsanlega verið að plægja jarðveginn fyrir þá réttlætingu að það sé í lagi að beita ofbeldi til að fá útrás fyrir reiði sína eða örvæntingu.

„Þarna er í raun komin félagsleg réttlæting fyrir allskyns andfélagslegri  hegðun svo sem skemmdarverkum og ofbeldi.“