Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Hættir sem þingflokksformaður vegna ágreinings

15.05.2017 - 12:45
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Ásta Guðrún Helgadóttir, þingmaður Pírata, er hætt sem þingflokksformaður flokksins. Hún segir þetta vera gert vegna ágreinings milli sín og meirihluta þingflokksins varðandi innra skipulag þingflokksins. „Við vorum með ólíka sýn á hvert þingflokkurinn ætti að stefna og því held ég að það sé farsælast að annar taki við því starfi.“ Ásta Guðrún segir í samtali við fréttastofu að engum hurðum hafi verið skellt en þetta hafi ekki verið auðveld ákvörðun.

Ásta Guðrún tók við sem þingflokksformaður af Birgittu Jónsdóttur eftir kosningarnar síðasta haust en þá fékk flokkurinn 10 þingmenn.  Ekki náðist í Einar Brynjólfsson, varaþingflokksformann, né Björn Leví Gunnarsson, ritara þingflokksins. 

Ásta Guðrún segir í samtali við fréttastofu að þetta hafi verið umræða sem hafi verið í gangi í nokkurn tíma. „Við höfðum bara ólíka sýn á hvert hlutverk þingflokksformannsins ætti að vera og hvaða skyldum hann ætti að gegna. Ég taldi að hann ætti að vera málsvari þingflokksins gagnvart þingheimi og að þetta ætti að vera á einni hendi - bara til einföldunar.“

Ásta segir að engum hurðum hafi verið skellt  en þetta hafi ekki verið auðveld ákvörðun. „Ég taldi bara farsællast að stíga til hliðar og nú setjumst við bara niður á reynum að finna eitthvað út úr þessu.“

Þingflokksfundur hjá Pírötum og öðrum flokkum sem eiga sæti á Alþingi eru að hefjast og samkvæmt upplýsingum fréttastofu von á tilkynningu frá þingflokknum eftir þann fund.

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV