Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Hætta við sameiningu þriggja stofnana

17.08.2016 - 12:48
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Hætt hefur verið við að sameina Samkeppniseftirlitið, Póst- og fjarskiptastofnun og Fjölmiðlanefnd. Samstarf stofnananna verður hins vegar aukið. Þá verður skoðað hvort fýsilegt sé að skipa eina stjórn yfir stofnanirnar. Iðnaðar- og viðskiptaráðherra segir að markmiðið sé ekki einungis að hagræða.

Í tillögum hagræðingarhóps ríkisstjórnarinnar var því beint til innanríkisráðherra og iðnaðar- og viðskiptaráðherra að skoða valdmörk og verkefni Póst- og fjarskiptastofnunar og Samkeppniseftirlitsins með tilliti til hugsanlegrar sameiningar embættanna. Fyrir ári skilaði Capacent fýsileikagreiningu á sameiningunni þar sem einnig var litið til þess hvort og þá hvaða skörun gæti legið til verkefna Fjölmiðlanefndar.

Nú hefur hins vegar verið tekin ákvörðun um að hverfa frá áformum um sameiningu. Þess í stað verður samstarf Samkeppniseftirlitsins, Póst- og fjarskiptastofnunar og Fjölmiðlanefndar aukið. Þá taka ráðuneytin til skoðunar hvort mögulegt sé að skipa eina stjórn fyrir stofnanirnar, auk þess sem til stendur að koma starfsemi stofnananna í sameiginlegt húsnæði. Með skýrri verkaskiptingu á sviði stoðþjónustu og sameiginlegum innkaupum verði hægt að ná fram nokkurri samlegð. En hvers vegna var horfið frá sameiningu? 

„Það er aðallega vegna þess að þetta er flókið mál sem þarf að vanda vel til,“  segir Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra. „Og við erum búin að vera að vinna þetta mjög vel og fá utanaðkomandi ráðgjafa til að vinna þetta með okkur á kjörtímabilinu. En okkur þótti ekki, sérstaklega í ljósi þess að kjörtímabilið hefur styst, rétt að fara af stað með svo viðamikla vinnu á lokametrunum. En í þessari vinnu allri saman hefur komið fram að það eru aukin tækifæri til aukins samstarfs og samþættingar á milli þessara stofnana þannig að það var ákveðið að setja þá vinnu í samstarfi og samráði við stofnanirnar þrjár og sjá hverju fram vindur.“

Auka skilvirkni og þjónustu

Er aðaltilgangurinn að ná fram hagræðingu?

„Ekki einungis. Og það kom meðal annars fram í vinnu Capacent að fjárhagslega hagræðingin af sameiningu yrði kannski ekki svo stórvægileg. En það sem að við erum að hugsa er að einfalda stjórnsýslu, við erum að auka skilvirkni og þjónustu, bæði við viðskiptalífið og hinn almenn borgara. Og það er það sem hefur rekið okkur áfram í þessari vinnu,“ segir Ragnheiður Elín.

Í tilkynningu ráðuneytisins segir að nú muni forsvarsmenn stofnananna móta í sameiningu framtíðarsýn fyrir starfið. Sú framtíðarsýn verði grundvöllur samstarfssamnings. Með skýrri verkaskiptingu á sviði stoðþjónustu og sameiginlegum innkaupum verði hægt að ná fram nokkurri samlegð. Í þessu felist tækifæri til að samþætta fjármálaumsjón, skjalavörslu, umsjón með fjárhagskerfi, upplýsingatæknimál, innkaupamál og starfsmannahald ásamt almennri afgreiðslu og skrifstofuþjónustu.

johann's picture
Jóhann Bjarni Kolbeinsson
Fréttastofa RÚV