Hætta við sameiningu Kölku og Sorpu

21.10.2019 - 14:07
Mynd með færslu
Kalka, sorpeyðingarstöð, í Helguvík i Reykjanesbæ. Mynd: Hilmar Bragi Bárðarson. Mynd:
Starfshópi sem falið var að meta kosti og galla þess að sameina sorpeyðingarstöðvarnar Sorpu og Kölku telur best að fallið verði frá þeim hugmyndum. Bæjarráð Reykjanesbæjar hefur samþykkt að hætta samningaviðræðum.

Ræddu við borgarstjóra

Starfshópurinn var skipaður fulltrúum Reykjanesbæjar, Suðurnesjabæjar, Grindavíkurbæjar og Voga. Hópurinn hittist tvisvar, auk þess sem tveir félagar hans hitti bæði Dag B. Eggertsson, borgarstjóra Reykjavíkur, og Pál Guðjónsson, verkefnastjóra fyrir starfshóp um heildarlausn úrgangsmála á höfuðborgarsvæðinu.

Ekki vilji til sameiningar

Eftir að hafa farið yfir gögn í málinu komst nefndin að þeirri niðurstöðu að ekki væri ótvíræður vilji meðal eiganda Sorpu til sameiningar við Kölku. Þá kom fram að athugasemdir frá Reykjavíkurborg við sameininguna voru með þeim hætti að ólíklegt þótti að borgin myndi samþykkja hana. Hópurinn komst einnig að því að ekki væri eining á Suðurnesjum um það hvort hagsmunum svæðisins væri best borgið með sameiningu Kölku og Sorpu. 

Halda áfram að kanna grundvöll til samstarfs

Við afgreiðslu málsins var ákveðið að hópurinn starfi áfram til að kanna grundvöll fyrir formlegu samstarfi sorpsamlaga á suðvesturhorni landsins.
Sorpa er í eigu Reykjavíkurborgar, Kópavogsbæjar, Hafnarfjarðarbæjar, Garðabæjar, Mosfellsbæjar og Seltjarnarness. Kalka er í eigu Reykjanesbæjar, Suðurnesjabæjar, Grindavíkurbæjar og Voga. 

Möguleg sameining hefur verið til skoðunar síðan árið 2016 en hugmyndir um hana byggist á því að eitt sameinað fyrirtæki um sorpið sé öflugra en tvö minni. Ekki náðist í Friðjón Einarsson formann bæjarráðs Reykjanesbæjar við vinnslu fréttarinnar. 

Óðinn Svan Óðinsson
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi