Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Hætta við að úthluta pelsum til fátækra

25.01.2017 - 11:16
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Fjölskylduhjálp Íslands hefur ákveðið að úthluta ekki pelsum frá PETA í dag eins og til stóð. Í tilkynningu frá Fjölskylduhjálp kemur fram að pelsarnir séu 200 en skjólstæðingarnir skipti þúsundum og því hafi ekki verið hægt að gera upp á milli þeirra fjölmörgu sem búi við fátækt á Íslandi.

Ásgerður Jóna Flosadóttir, framkvæmdastjóri Fjölskylduhjálpar Íslands, segir að nokkrir starfsmenn stofnunarinnar hafi aðgang að Þjóðskrá Íslands og skattframtali fólks. Fjölskylduhjálp geti þannig séð stöðu fólks, skuldir og eignir. Með þeim upplýsingum hafi átt að ganga úr skugga um að pelsarnir færu þangað sem neyðin væri mest. 

Pelsagjöfin hefur verið mikið gagnrýnd undanfarna daga en allir pelsarnir eru merktir með bleikri málningu. Gagnrýnisraddir hafa haldið því fram að með því sé verið að merkja fátæka. Guðrún Ögmundsdóttir, fyrrverandi þingmaður, sagði að það væri siðferðislega rangt að merkja fátækja með slíkum hætti. 

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

 

Pelsunum verður þó ekki fargað. „Heimilislausir hafa nú þegar fengið pelsa til þess að halda á sér hita í óupphituðum húsakynnum og hríplekum kofum. Pelsarnir verða gefnir í þau dýraathvörf sem starfandi eru hér á landi.“ segir Ásgerður Jóna í tilkynningunni.

Ekki náðist í Ásgerði Jónu við gerð fréttarinnar.