Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

„Hætta fyrir skepnur og börn"

06.06.2017 - 11:11
Mynd með færslu
 Mynd: Guðmundur Halldórsson
Lóga þurfti lambi sem lærbrotnaði eftir að hafa stigið í minkaboga við bæinn Svarthamar í nágrenni við Súðavík síðasta föstudag. Guðmundur Halldórsson, bóndi á bænum, segir slíka boga klemma fast og að ekki sé hægt að losa þá nema með miklu afli. „Það getur enginn losað sig úr þessu. Þessir bogar valda mikilli hættu bæði fyrir skepnur og börn," segir hann. Samkvæmt lögum er notkun á slíkum bogum leyfileg. 

Lambið var í eigu Guðmundar. Ferðamaður fann það skammt frá bænum. „Lambið hefði sloppið betur en í látunum við að festast í boganum lærbrotnaði það." Slíkir bogar eru yfirleitt bundnir við staura og var þessi bundinn við staur nálægt árfarvegi þar sem stundum er fólk á gangi. Guðmundur kveðst ekki vita hver setti minkabogann upp við bæinn en vonar að viðkomandi gefi sig fram. Hann segir minka ekki hafa verið til vandræða á svæðinu og óttast að það sé af öðrum ástæðum en þörf sem fólk eltist við þá.

Fáránlegt að leyfa pyntingu á minkum

Notkun á minkabogum er lögleg hér á landi. Formaður Dýraverndarsambands Íslands, Hallgerður Hauksdóttir, segir fráleitt að taka eina dýrategund út fyrir sviga og leyfa á henni pyntingar. „Það er eins og löggjafinn hafi tekið minkinn út fyrir sviga. Það má drekkja honum einum dýra. Samkvæmt lögum er það annars dýraníð að drekkja dýrum, en ekki þegar minkurinn á í hlut," segir hún og nefnir að eigandi hunds sem drekkti honum hafi hlotið dóm fyrir athæfið.

Hallgerður segir að Dýraverndarsamband Íslands sé afar ósátt með að slíkir bogar séu leyfilegir. „Okkur finnst það algjörlega fráleitt. Í þeim löndum sem við miðum okkur við eru notaðar mannúðlegri aðferðir við skipulagar veiðar af þessu tagi."

Mynd með færslu
Minkabogi. Mynd úr safni.  Mynd: Guðmundur Halldórsson

Leyfilegt að nota minkaboga

Samkvæmt lögum um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum er notkun á slíkum bogum leyfileg. í 9. gr. laganna segir að fótbogar eða gildrur séu ekki leyfileg, nema til músa-, rottu,- minkaveiða og til að ná tófuyrðlingum við greni. Samkvæmt upplýsingum frá Umhverfisstofnun er eins með þessar gildrur og aðrar að hafa þurfi kunnáttu til. Þar sem möguleiki sé á að húsdýr séu nálægt, beri að byrgja bogann þannig að öðrum verum stafi ekki hætta af. 

Engar reglur eru í raun um notkun fótboga, segir í svari Umhverfisstofnunar. Þeir hafi til langs tíma verið algengasta verkfærið við veiðar á mink en önnur og nútímalegri tæki séu komin til sögunnar sem aflífa minkinn með skjótvirkari hætti en var. Þá segir í svari Umhverfisstofnunar að fremur sjaldgæft sé að lömb fari í minkaboga, enda fari bogunum fækkandi. 

 

dagnyhe's picture
Dagný Hulda Erlendsdóttir