Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Hætta drónaárásum að uppfylltum skilyrðum

21.09.2019 - 01:34
This Saturday, Sept. 14, 2019, satellite image from Planet Labs Inc. shows thick black smoke rising from Saudi Aramco's Abqaiq oil processing facility in Buqyaq, Saudi Arabia. Yemen's Houthi rebels launched drone attacks on the world's largest oil processing facility in Saudi Arabia and a major oil field Saturday, sparking huge fires and halting about half of the supplies from the world's largest exporter of oil. (Planet Labs Inc via AP)
 Mynd: AP images
Uppreisnarsveitir Húta í Jemen heita því að hætta öllum dróna- og eldflaugaárásum á Sádi Arabíu, en með einu skilyrði þó. Um síðustu helgi var stærsta olíuhreinsunarstöð heims, Aqaiq-stöðin í Sádi Arabíu, eyðilögð í drónaárás, og olíuvinnslusvæðið Khurais líka.

Uppreisnarsveitir Húta lýstu árásunum fljótlega á hendur sér og hótuðu frekari árásum. Nú er komið annað hljóð í strokkinn. Mahdi al-Maschat, forseti leiðtogaráðs Húta, segir sína menn tilbúna til að láta af öllum dróna- og eldflaugaárásum á sádi-arabísk skotmörk - en þó því aðeins, að Sádi Arabar og bandamenn þeirra hætti eldflauga- og loftárásum sínum á yfirráðasvæði Húta.

al-Maschat greindi frá þessu tilboði sínu í sjónvarpsávarpi í dag og sagðist vona að stjórnvöld í Riyadh taki vel í það. Haldi Sádar og bandamenn þeirra uppteknum hætti áskilji Hútar sér aftur á móti allan rétt til að svara í sömu mynt, sagði al-Maschat.

Í ávarpinu fór hann líka fram á að herkvínni um alþjóðaflugvöllinn í Sanaa yrði aflétt og að skipaumferð til og frá hafnarborginni Hodeida fengi að ganga óhindrað fyrir sig.