Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Hætta af öllum lausum húsgögnum á heimilum

07.01.2020 - 19:04
Mynd með færslu
 Mynd: skjáskot - rúv
Sænski húsgagnaframleiðandinn IKEA samþykkti í dag að greiða foreldrum bandarísks drengs, sem lést árið 2017 þegar kommóða féll ofan á hann, 5,5 milljarða króna í skaðabætur. Kommóðan hefur verið endurhönnuð og er seld hér á landi. Framkvæmdastjóri IKEA á Íslandi segir mikilvægt að festa slík húsgögn kyrfilega við veggi.

Lögmenn foreldra drengsins, hins tveggja ára Jozefs Dudek, telja að þetta séu hæstu bætur sem samið hefur verið um vegna andláts barns í sögu Bandaríkjanna. Upphæðin er þrefalt hærri en IKEA greiddi árið 2016 þegar rösklega sex milljörðum króna var skipt á milli þriggja fjölskyldna eftir að MALM kommóður féllu ofan á börn með þeim afleiðingum að þau létust. Talið er að níu börn hafi látist í Bandaríkjunum eftir að hafa orðið undir MALM kommóðum undanfarin ár. Kommóðan er sú mest selda í heimi, en í kjölfar slysanna voru milljónir slíkra kommóða innkallaðar víðsvegar um heiminn vegna slysahættu.   

Engin slys hér á landi 

Stefán Rúnar Dagsson, framkvæmdastjóri IKEA á Íslandi, segir að ekki hafi orðið nein sambærileg slys hér á landi, eða annars staðar í Evrópu. Kommóðan var þó hönnuð upp á nýtt. 

„Botninn var lengdur fram og síðan voru skúffurnar styttar svo þær opnast ekki eins langt út og þær gerðu á eldri týpunni. Svo þetta ætti að koma í veg fyrir að hún detti jafn auðveldlega? Já, hún er öruggari.“

Mikilvægt að festa húsgögn við veggi

Stefán segir að ákveðin hætta sé af öllum lausum húsgögnum á heimilum.

„Eins og kommóður, hillur, hillusamstæður og annað. Það er öruggara að festa þær við veggi.“ 

Veggfestingar fylgja öllum húsgögnum sem ætlast er til að séu fest við vegg. 

„Við erum líka með þessar festingar í Skilað og skipt hjá okkur, á upplýsingaborðinu, þar sem við gefum þær.  Þú þarft ekkert endilega að vera með IKEA húsgagn, það getur verið hvaða húsgagn sem er. Ég fullkomlega mæli með því að festa allt. Við líka búum í þannig landi, þar sem eru jarðskjálftar og annað,“ segir Stefán.  

Þórhildur Þorkelsdóttir
Fréttastofa RÚV