Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Hætta á að íslensk fyrirtæki verði undir

15.10.2019 - 22:22
Mynd: Apple / Apple
Íslensk tækni- og nýsköpunarfyrirtæki eiga á hættu að verða undir í samkeppni við erlend fyrirtæki, verði tilskipun Evrópusambandsins um opin bankaviðskipti ekki innleidd í íslensk lög fljótlega, segir talsmaður Samtaka fjártæknifyrirtækja.

Því er spáð að innleiðing PSD2 tilskipunar Evrópusambandsins muni gjörbreyta rekstrarumhverfi á fjármálamarkaði. Í einföldu máli verða bankar samkvæmt tilskipuninni að veita nýjum þjónustuveitendum óhindrað aðgengi að innlánareikningum viðskiptavina sinna. Það eina sem þarf er samþykki eiganda reikningsins og bankinn má ekki innheimta viðbótargjald af þessari þjónustu.

Opnar neytendum nýjan veruleika

Hingað til hafa neytendur átt í beinum viðskiptum við sinn viðskiptabanka. Kortin sem þeir nota eru gefin út af bankanum og neytandi getur stýrt sínum viðskiptum við bankann annaðhvort í útibúi eða í gegnum tækni eins og netbanka. Þegar PSD2 verður innleitt getur neytandinn hins vegar fært alla þessa þjónustu til þriðja aðila sem fær þar með aðgang að bankareikningi hans. Þetta geta verið innlend fyrirtæki, svo sem sprotafyrirtæki, fjarskiptafyrirtæki og verslunarkeðjur eða alþjóðleg fyrirtæki á borð við Apple, Facebook og Google. Þetta opnar neytendum nýjan veruleika.

 „Ef við horfum líka til Evrópu sjáum við fullt af nýjum þjónustum þar sem að tilboð og afslættir, það er hægt að hugsa sér að Google fengi aðgang og í staðinn gæfu þeir betri tilboð og afslætti fyrir auglýsingar fyrir þá sem geta hugsað sér það. Að hjálpa þér eða minni þig á að segja upp áskriftum er önnur þjónusta sem er að ryðja sér til rúms í Skandinavíu og svo framvegis og svo framvegis. Það eru alls konar þjónustur,“ segir Georg Lúðvíksson, forstjóri Meniga og talsmaður Samtaka fjártæknifyrirtækja.

Ísland á eftir Evrópu

Tilskipunin var samþykkt í janúar í fyrra og hafa tæplega 90 prósent aðildarríkja leitt hana í lög. Þann 14. september rann út sá frestur sem bankar og önnur fyrirtæki á greiðslumarkaði höfðu til að opna bankareikninga viðskiptavina sinna. Tilskipunin er þegar orðin hluti af sameiginlegu regluverki evrópska efnahagssvæðisins og verður því leidd í lög hérlendis. Hvenær það verður er óljóst, í það minnsta er málið ekki enn komið á þingmálaskrá. Þess er hins vegar beðið með óþreyju.

„ Ég veit að bankarnir eru byrjaðir að undirbúa þetta og fjártæknifyrirtækin eru spennt að fá þennan aðgang en þetta er slæmt, þessi töf er slæm því að fjártæknifyrirtækin á meðan aðgangurinn er ekki komin í gagnið hér því á meðan verður nýsköpunin ekki hér heldur annars staðar,“ segir Georg.

Hætta sé á að íslensk fyrirtæki verði eftir í samkeppninni við erlenda aðila. „Við sjáum það, það er fullt af verkefnum sem eru í gangi á Íslandi sem eru í keppni við verkefni annars staðar í Evrópu sem að hafa núna það forskot að geta byrjað að vinna þetta erlendis.“