Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Hæstiréttur staðfesti nálgunarbann

10.09.2015 - 02:28
Ásdís Viðarsdóttir í Kastljósi
 Mynd: RÚV
Hæstiréttur staðfesti á þriðjudag nálgunarbann það sem Héraðsdómur Norðurlands eystra úrskurðaði Erlend Eysteinsson í þann 31. ágúst síðastliðinn. Nálgunarbannið gildir í sex mánuði og meinar honum að koma inn fyrir 50 metra radíus umhverfis heimili Ásdísar Viðarsdóttur, fyrrum sambýliskonu hans.

Þá er Erlendi bannað nokkur samskipti við Ásdísi eða nálgast hana á almannafæri. Erlendur hefur ítrekað sent Ásdísi smáskilaboð með líflátshótunum og hótunum um barsmíðar og hefur áður sætt nálgunarbanni vegna hótana í hennar garð. Fyrir þær hótanir og brot á banninu hlaut Erlendur átta mánaða dóm 2014. Hann var handtekinn aftur nokkrum mánuðum seinna þegar hótunum linnti ekki.

Hlé varð á áreitni Erlends gagnvart Ásdísi þar til í sumar. Í júní var hann aftur dæmdur fyrir líkamsárás, átta hundruð brot á nálgunarbanni, brot á barnaverndarlögum og fyrir að hafa brotið gegn blygðunarsemi Ásdísar. Í kjölfar dómsins gerði Ásdís aftur kröfu um nálgunarbann. Vegna mistaka lögreglu fékk sú krafa ekki framgang fyrr en nú. Í millitíðinni sendi Erlendur henni á þriðja hundrað smáskilaboða. 

Dóm hæstaréttar, þar sem dómur héraðsdóms er einnig rakinn, má nálgast á vef Hæstaréttar.