Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Hæstarétti gert að afmá nafn úr birtum dómi

29.09.2017 - 14:05
Mynd með færslu
 Mynd: Rúv - rúv
Hæstiréttur mátti ekki birta nafn Páls Sverrissonar í dómi sem féll árið 1999 í máli sem hann höfðaði gegn Vátryggingafélagi Íslands. Þetta er niðurstaða Persónuverndar, sem hefur gert réttinum að afmá nafn Páls af vef sínum. Persónuvernd fellst hins vegar ekki á að tilefni sé til að kæra málið til lögreglu.

Dómurinn sem um ræðir snerist um bætur vegna umferðarslyss sem átti sér stað árið 1992. Deilt var um hvort VÍS mætti skerða bætur til handa Páls vegna ýmissa formsatriða. Í dómnum, sem birtur var opinberlega, meðal annars á vef Hæstaréttar, var farið yfir það líkamstjón og örorku sem hann varð fyrir í slysinu.  

Í úrskurði Persónuverndar segir að jafnvel þó að ákvæði í lögum feli í sér skyldu til að birta hæstaréttardóma geti það ekki falið í sér heimild til birtingar viðkvæmra persónuupplýsinga á við heilsuhagi. Stofnunin segir að ekki verði heldur horft fram hjá því að birting dómsins hafi sama gildi gagnvart almenningi þó að persónuauðkenni hefðu verið afmáð úr honum fyrir birtingu.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem staðfest er að opinberir aðilar hafi brotið á rétti Páls til nafnleysis í málum honum tengdum. Árið 2014 viðurkenndi ríkið bótaskyldu í máli sem snerist um birtingu á gögnum úr sjúkraskrám hans í Læknablaðinu þegar úrskurður siðanefndar Læknafélagsins vegna kvörtunar Páls á meðferð á gögnunum var birtur.

Þegar Páll leitaði réttar síns gagnvart Læknablaðinu og ritstjóra þess og síðar lækni sem upphaflega fór ólöglega með upplýsingar úr skránum gerðist það svo í þrígang að dómstólar endurbirtu sjúkragögn og nafn Páls. Var það gert þegar dómar um bætur til handa honum vegna meðferðar á þessum upplýsingum voru birtir. 

adalsteinnk's picture
Aðalsteinn Kjartansson
Fréttastofa RÚV