Hærri hiti sjávar drap milljón langvíur

17.01.2020 - 02:17
Mynd með færslu
Þessar íslensku langvíur eru svo heppnar að vera við hestaheilsu Mynd: Náttúrustofa Norðausturlands - RÚV
Um milljón langvíur drápust á innan við ári vegna óvenjulegs hita sjávar í Kyrrahafi á milli áranna 2015 og 2016. Samkvæmt nýútgefinni rannsókn drápust fuglarnir að líkindum úr hungri.

62 þúsund fuglshræ fundust á vesturströnd Bandaríkjanna, við Alaska, Washington, Oregon og Kaliforníu. Þar sem fæsta dauða fugla rekur á land reikna vísindamennirnir við háskólann í Washingtonríki með því að langvíurnar sem drápust séu um milljón. Langflestir fuglarnir fundust við strendur Alaska. Um 4.500 hræ fundust á hverjum kílómetra við ströndina í Prince Williams-sundi. 

Hitinn í sjónum stafaði af háþrýstiveðurkerfi sem fyrst leit dagsins ljós árið 2013. El Nino veðurfyrirbrigðið ýtti svo enn frekar undir hækkun hitastigs sjávar, sem leiddi til þess að hann varð sex selsíusstigum hærri að meðaltali á milli áranna 2015 og 2016 en í meðalári. Á hitakortum má greina umfangsmikla rauða skvettu, sem spannar um eina milljón ferkílómetra, nærri tíu sinnum stærra svæði en Ísland.

Fleiri dýr drápust

Samkvæmt rannsókninni eru allar líkur á því að langvíurnar hafi drepist úr hungri. Fuglarnir verða að éta helming þyngdar sinnar til þess að lifa af. Við hækkandi hita sjávar jókst samkeppnin um mat við aðrar skepnur og því minna um fæðu fyrir fuglana. 

Meðal annarra niðurstaðna vísindamannanna var að hitinn jók verulega vöxt þörunga við vesturströnd Bandaríkjanna, sem olli verulegu tjóni fyrir veiðimenn. Fleiri dýr drápust líka í hrönnum, til að mynda sæljón, kyrrahafslundi og skíðishvalir.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi