Athugið þessi frétt er meira en 9 ára gömul.

Hælisleitandi grunaður um mansal

20.11.2013 - 19:35
Mynd með færslu
 Mynd:
Lögreglan leitar enn hælisleitanda sem senda átti úr landi í gær. Útlendingastofnun synjaði manninum um hæli en hann hefur dvalist hér á landi í um tvö ár. Maðurinn er grunaður um aðild að mansali.

Lögmaður mannsins fullyrðir að umbjóðandi sinni, Tony Omos eigi von á barni með nígerískri konu hér á landi og því ætti ekki að stía þeim í stundur. Konan er ein af níu nígerískum konum sem hingað komu fyrir um einu og hálfu ári. Nokkrar þeirra voru vanfærar og 7 þeirra dvöldust í Kristínarhúsi, athvarfi fyrir fórnarlömb mansals og fæddust þar þrjú börn.  

Omos sat um tíma í gæsluvarðhaldi vegna gruns um að vera einn skipuleggjenda mansalsins.  Konan sem hann fullyrðir að beri barn sitt undir belti hefur sótt um hæli hér á landi, meðal annars á grundvelli þess að hún sé fórnarlamb mansals. Hún segir nú að Omos sé faðir barnsins en nú er rannsakað hvort Omos hafi beitt hana þrýstingi til að segja hann föðurinn.  

Hann hefur samkvæmt upplýsingum Rúv verið tvísaga um faðernið. 

Kastljós ræddi við tvær nígerísku kvennanna í Kristínarhúsi í fyrra. Þær lýstu nauðgunum og harðræði sem þær þurftu að þola áður en þær komu hingað til lands. Talsmaður Stígamóta sagðist sannfærð að þær væru fórnarlömb mansals. Samkvæmt heimildum fréttastofu er rannsókn mansalsmálsins á Suðurnesjum umfangsmikil og flókin.

Lögreglumenn hafa sótt ráðgjöf frá Noregi þar sem talsverð reynsla er fyrir hendi af þessum málum.  Þá hafa mörg DNA sýni verið tekin til að kortleggja tengsl hópsins og sannreyna vitnisburði.  Omos hefur enn stöðu grunaðs manns. Hópur mótmælenda safnaðist saman í dag fyrir utan innanríkisráðuneytið til að mótmæla því að senda ætti Omos úr landi.