Hækkun lífeyrisaldurs frestað

21.12.2017 - 11:18
Mynd með færslu
 Mynd: Ægir Þór Eysteinsson - RÚV
Ekki verður byrjað að hækka lífeyrisaldur í áföngum um næstu áramót eins og kveðið var á um í fjárlagafrumvarpinu. Þetta staðfestir Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra í samtali við Viðskiptablaðið í dag.

Í fjárlagafrumvarpinu kom fram að um næstu áramót verði byrjað að hækka lífeyrisaldur, sem nú er 67 ár, upp í sjötugt í áföngum þannig að hann mydni hækka um tvo mánuði á ári. Þannig tæki þá 24 ár að hækka aldurinn upp í 70 ár. Þetta hefur verið gagnrýnt víða.

Bjarni segir nú, í samtali við Viðskiptablaðið að ekki sé stefnt að þessu frá næstu áramótum. „Það voru mistök að hafa ákvæð- ið í fjárlagafrumvarpi og það mun ekki koma fram frumvarp um það að sinni,“ segir Bjarni.

Það breytir því ekki að enn er stefnt að því að hækka lífeyrisaldurinn upp í 70 ár, en sú stefna var boðuð með breytingum á réttindakerfum í almannatryggingum í fyrra. Ekki liggur hins vegar fyrir hvenær það verður gert. Bjarni sagði að það verði að koma í ljós hvenær það verður hægt.

hallgrimur's picture
Hallgrímur Indriðason
Fréttastofa RÚV