Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Hækkun á styrk köfnunarefnisdíoxíðs í Reykjavík

29.01.2020 - 15:03
Mynd með færslu
Mynd úr safni. Mynd: Freyr Arnarson - RÚV
Styrkur köfnunarefnisdíoxíðs mælist hár í mælistöðinni á Grensásvegi í Reykjavík. Klukkan eitt var klukkutímagildi köfnunarefnisdíoxíðs 95 míkrógrömm á rúmmetra. Sólarhringsheilsuverndarmörk fyrir köfnunarefnisdíoxíð eru 75 míkrógrömm á rúmmetra. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Reykjavíkurborg.

Gert er ráð fyrir áframhaldandi hægviðri og frosti í dag og umtalsverðar líkur á því að styrkur köfnunarefnisdíoxíðs fari yfir sólarhringsheilsuverndarmörk við Grensásveg, segir í tilkynningunni.  Gert er ráð fyrir svipuðu veðri næstu daga og því líkur á að þetta ástand verði viðvarandi.

Köfnunarefnisdíoxíð kemur frá útblæstri bifreiða og er mest þegar umferð er þung, á morgnana og síðdegis. Í tilkynningu frá borginni er fólk hvatt til að draga úr notkun einkabílsins, nýta sér frekar almenningssamgöngur, sameinast í bíla eða nota aðra vistvæna samgöngumáta.

Þá ættu  börn og þeir sem eru viðkvæmir í öndunarfærum að forðast útivist í lengri tima og takmarka áreynslu nærri stórum umferðargötum. 

 

Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV