Hækkið róminn en ekki yfirborð sjávar

Mynd með færslu
 Mynd:

Hækkið róminn en ekki yfirborð sjávar

05.06.2014 - 14:52
Dagur umhverfisins er í dag og Stefán Gíslason fjallar um daginn í pistli sínum sem líka má lesa hér að neðan.

Í dag er alþjóðlegur dagur umhverfisins haldinn hátíðlegur eins og jafnan þann 5. júní. Þema dagsins að þessu sinni eru áhrif loftslagsbreytinga á lítil eyjasamfélög í þróunarlöndunum, og m.a. þess vegna er eyríkið Barbados aðalgestgjafi dagsins. Barbados varð þó ekki fyrir valinu af handahófi. Þar hafa stjórnvöld einsett sér að vera í fararbroddi í umhverfismálum á heimsvísu, ekki bara í orði kveðnu eins og sums staðar vill brenna við, heldur með því að láta verkin tala.
Barbados er eitt af minnstu sjálfstæðu ríkjunum í heiminum. Flatarmál landsins er það sama og Grýtubakkahrepps, eða rétt um 432 ferkílómetrar, enda er eyjan ekki nema 34 km að lengd og 23 að breidd. Hins vegar er íbúafjöldinn sýnu hærri en í Grýtubakkahreppi, því að á Barbados búa eitthvað um 270 þúsund manns.
Eins og fleiri eyríki er Barbados berskjaldað fyrir áhrifum loftslagsbreytinga, bæði hvað varðar hækkun sjávarborðs og tíðari öfga í veðurfari. Og eins og fleiri eyríki á Barbados sáralítinn þátt í orsökunum. Stjórnvöld á Barbados leggja mikla áherslu á að gera ríkið að grænu hagkerfi, og þar skiptir nýting sólarorku miklu máli. Eyjan snýr enda einkar vel við sólu þarna úti í Karabíska hafinu.

 Stjórnvöld á Barbados líta á dag umhverfisins sem kjörið tækifæri til að koma sér á kortið og vekja athygli á málstað smáríkja í baráttunni gegn loftslagsbreytingum. Ýmsum verkefnum verður hleypt af stokkunum í tilefni dagsins, og sum þeirra fóru reyndar í gang um síðustu helgi. Þar á meðal er áskorun til almennings um að smella af sér einni sjálfu (eða selfie eins og fyrirbærið er gjarnan nefnt í daglegu máli) með fyrirheiti um að beita sér fyrir umhverfisvænum uppátækjum á þessum fallega degi. Á mánudag var kveikt á fyrsta sólfangaraþakinu á opinberri byggingu á Barbados, en á næstu mánuðum verður slíkum búnaði komið fyrir á þaki 100 opinberra bygginga í landinu. Á Barbados skín sólin flesta daga, og eins og orkumálaráðherra landsins orðaði það á dögunum, væri það sóun á plássi í landlitlu ríki að nýta ekki þökin til orkuframleiðslu.

 Í dag eru íbúar Barbados hvattir til að ganga í grænum fötum til að sýna umhyggju sínu fyrir umhverfinu. En það er ekki bara þar sem þessi dagur er nýttur til að vekja athygli á brýnustu viðfangsefnunum í hverju byggðarlagi og í hverju landi. Á Sri Lanka er dagurinn til dæmis helgaður baráttunni fyrir því að verja strendur landsins fyrir plastúrgangi sem berst þangað utan af hafi. Risavaxin hafmeyja, klædd í plastúrgang af ströndinni er miðpunktur verkefnisins þar sem hún stendur fyrir framan verslunarmiðstöð í höfuðborginni Colombo. Í Kosovo standa Sameinuðu þjóðirnar fyrir hreinsunarátaki í samvinnu við 45.000 heimamenn. Þar er ekki bara ætlunin að taka til þennan eina dag, heldur að halda landinu hreinu um alla framtíð. Í Stavanger í Noregi verður leikverkið „Þegjandi enn“ eða „Still in Silence“ sett upp í dag, en verkið byggir á sannri sögu um spillingu og ólöglega notkun alþjóðlegs matvælaframleiðanda á varnarefnum. Í leikverkinu er sjónum beint að vistfræðilegum og lýðræðislegum skuggahliðum efnavædds landbúnaðar, og eins og titill verksins bendir til, felst í því tilvísun í bók Rachel Carson, Raddir vorsins þagna, sem gerð var að umræðuefni hér í Sjónmáli á dögunum.

 Nú velta sjálfsagt einhverjir því fyrir sér hvers vegna 5. júní hafi endilega verið valinn sem alþjóðlegur dagur umhverfisins. Ástæðan er sú að þennan dag árið 1972 hófst Umhverfisráðstefna Sameinuðu þjóðanna í Stokkhólmi, en það var í fyrsta sinn sem fulltrúar ríkja heims komu saman til að álykta sérstaklega um náttúruvernd og mengunarmál. Ákvörðunin um að taka upp sérstakan umhverfisdag var tekin á Allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna daginn sem ráðstefnan hófst, þ.e.a.s. fyrir réttum 42 árum. Dagurinn var haldinn hátíðlegur í fyrsta sinn ári síðar, sem sagt 5. júní 1973, og svo árlega þennan sama dag upp frá því. Í öll þessi 42 skipti hefur dagurinn verið helgaður sérstöku málefni eða sérstöku þema, sem að þessu sinni eru áhrif loftslagsbreytinga á lítil eyjasamfélög í þróunarlöndunum, eins og áður hefur komið fram.

 Það stoðar auðvitað lítt að hugsa bara um umhverfismál í dag, en gleyma þeim alla hina dagana. Hugmyndin um alþjóðlegan dag umhverfisins gengur út á að vekja fólk til umhugsunar um stöðu umhverfismála, nógu mikillar umhugsunar til að hafa áhrif á hegðun þessa sama fólks alla hina dagana. Dagurinn á líka að fá fólk til að hugsa um hverju það getur breytt í eigin lífi til að búa í haginn fyrir börnin sín og barnabörnin. Því að þrátt fyrir að hver einstaklingur sé ekki nema einn sjöþúsundmilljónasti hluti af íbúum þessarar litlu eyju í geimnum sem mannkynið allt lifir á, þá skiptir hann að minnsta kosti jafnmiklu máli og allir hinir sjöþúsundmilljónustu hlutarnir. Í þessu sambandi er vert að hafa í huga að án dropa væri ekkert haf, eða eins og það er orðað í kínverskum málshætti: „Mörg lítil verk sem margt lítið fólk vinnur á mörgum litlum stöðum, geta breytt heiminum“.

 Það hefur víst ekki farið fram hjá neinum að dagur umhverfisins þetta árið er helgaður áhrifum loftslagsbreytinga á lítil eyjasamfélög í þróunarlöndunum. Mikil áhersla er lögð á að virkja fólk til þátttöku og hvetja það til að láta í sér heyra um mikilvægi ábyrgrar umgengni við náttúruna. Kjörorð dagsins er „Hækkið róminn en ekki yfirborð sjávar“.