Athugið þessi frétt er meira en 9 ára gömul.

Hægt að lesa SMS þingmanna og ráðherra

30.11.2013 - 12:36
Mynd með færslu
 Mynd:
Tyrkneski tölvuþrjóturinn komst einnig yfir mörg þúsund SMS skilaboð til viðskiptavina Vodafone, meðal annars þar sem þingmenn og ráðherrar ræða störf þingsins og önnur viðkvæm mál í trúnaði. Skilaboðin ná þó aðeins yfir takmarkað tímabil.

„Ég vildi að þú hefðir drukkið mjólkina í gær.“ Svona hljómar eitt af mörg þúsund smáskilaboðum sem eru í skrá sem tölvuþrjótur setti á netið í morgun. Mörg skilaboðin eru auglýsingar, eða svokölluð hóp-SMS, önnur eru mun persónulegri og enn önnur innihalda beinlínis trúnaðarupplýsingar sem tengjast störfum viðkomandi viðskiptavina.

Fréttastofa hefur í morgun farið yfir SMS skilaboð til þingmanna, ráðherra, framkvæmdastjóra, fréttamanna og annarra. Skilaboðin voru öll send þrjá ákveðna daga á síðustu þremur árum, því er langt frá því að um tæmandi lista sé að ræða.

„Sæll, fundur um þingsköpin verður ekki á morgun" stendur í einum skilaboðum til þingmanns. „Þú ef til vill mótmælir við Jóku eða SJS,“ segir í öðru.

Í einum skilaboðum til þingmann s„Þarf ekki aukinn meirihluta fyrir sjávarútvegsmálum? Þess þurfti um daginn.“ Í öðrum skilaboðum, sem þáverandi þingmaður sendi samflokksmanni á þingi sumarið 2011, segir um nafngreinda konu: „Ég held að þú ættir að heyra í henni. Það væri slæmt ef hún væri að segja af sér með látum vegna þess að við brugðumst ekki við.“ Í mars sama ár segir þingmaður við samflokksmann: „Erum að fara á leynifund í LÍÚ, segi þér síðar.“

Í febrúar 2012 sendir síðan þingmaður skilaboð á nokkra samflokksmenn sína og skýrir frá því að hann hafi afþakkað boð um að ræða stjórnarskrármálið í Kastljósi og mælist til þess að þeir geri það líka.

Af þessu er ljóst að margt er að finna í þessum smáskilaboðum sem ekki átti að koma fyrir augu almennings. Það mun taka töluverðan tíma að fara í gegnum öll gögnin en það eina sem þarf er að leita að símanúmerum og skilaboðin birtast hverjum sem þau vill lesa.