Gyldendal gefur út Íslendingasögur

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

Gyldendal gefur út Íslendingasögur

16.04.2016 - 14:48

Höfundar

Undirritaður hefur verið samstarfssamningur milli danska forlagsins Gyldendal og Saga forlags á Íslandi um útgáfu allmargra bóka í Danmörku sem sækja efni í fyrstu heildarútgáfu Íslendingasagna og þátta á dönsku. Heildarútgáfa á Íslendingasögunum og þáttum kom út á dönsku, norsku og sænsku fyrir tveimur árum hjá Saga forlagi í Reykjavík.

Jóhann Sigurðsson, útgefandi segir að þessi samningur hafi mikla þýðingu fyrir útbreiðslu og kynningu á sögunum. Heildarútgáfa Sögu forlags á Íslendingasögunum á dönsku hafi fengið mjög góðar viðtökur og upplagið sé á þrotum. 

Gyldendal ætli að gefa út 12 bækur, sex harðspjalda og sex kiljur. Þetta séu stakar sögur með nákvæmum skýringum, kortum, töflum og formálum. Stefnt sé að mjög öflugri dreifingu og kynningu í Danmörku.

Vakti mikla athygli

Útgáfa Íslendingasagnanna vakti verulega athygli í norrænu löndunum þremur, en ef til vill mesta í Danmörku. Margréti Danadrottningu var afhent eintak útgáfunnar við útkomu og þá flutti Þórarinn Eldjárn drottningu sérstaka drápu sem hann hafði samið af þessu tilefni sem þakklætisvott til drottningar fyrir að hafa heiðrað útgáfuna með sérstökum formála og stutt hana með ráðum og dáð. 

Jóhann Sigurðsson segir að útgáfurnar í Noregi og Svíþjóð hafi gengið ágætlega þó að þær hafi ekki fengið jafn mikla athygli og viðtökur og í Danmörku. Um það bil eitt þúsund eintök hafi selst í hvoru landinu sem hann telji verulega gott.