Guterres gleðst yfir auknum áhuga á grænum fjárfestingum og nefnir sérstaklega áform evrópska fjárfestingabankans um að hætta að fjárfesta í jarðefnaeldsneyti fyrir árið 2022. Hann gleðst líka yfir því að 70 ríki hafi lýst því yfir að þau hyggist skerpa á markmiðum sínum fyrir ráðstefnuna á næsta ári og 65 ríki hafi skuldbundið sig til þess að vinna að kolefnishlutleysi fyrir árið 2050. Honum gremst aftur á móti að enn hafi G20 ríkin, sem losa um tvo þriðju hluta allra gróðurhúsalofttegunda, lagt lítið af mörkum. Guterres vill að þeir sem mest menga taki sig á, og að þeir beri kostnaðinn af þvi að menga ekki almenningur. Hann segir að grænt hagkerfi sé tækifæri ekki ógn en að hann sé orðinn langþreyttur á aðgerðarleysinu, sérstaklega í ljósi þess að lausnirnar séu flestar til.
Ráðstefna á hrakhólum
Upphaflega stóð til að ráðstefnan, sem haldin er af UNFCCC, skrifstofu Rammasáttmála Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar, færi fram í Brasilíu en forseti landsins Jair Bolsonaro, sem er lítið gefið um loftslagsbreytingar eða aðgerðir gegn þeim, hætti við það. Ráðstefnan var þá færð til Kosta Ríka en af efnahagsástæðum reyndist ekki unnt að halda hana þar. Þá var tekin ákvörðun um að halda hana í Santíagó, höfuðborg Chile, þar er krísuástand og allt logandi í mótmælum og því sá forseti landsins, Sebastian Pinera, sér ekki annað fært, en að hætta við rúmum mánuði áður en ráðstefnan átti að hefjast. COP 25 var þó ekki lengi á hrakhólum, nokkrum dögum síðar tóku stjórnvöld á Spáni hana að sér. Þetta fól auðvitað í sér rask. Þetta er tveggja vikna ráðstefna og búist við um 29 þúsund gestum, margir voru búnir að panta flug til Santíagó og bóka hótel en stjórnvöld í Chile ræddu við hótel og flugfélög, reyndu að búa svo um hnútana að þátttakendur fengju endurgreitt. Tjón þeirra varð því minna en ella.
Kolefnisspor á við 7000 heimili
Nú eru kannski einhverjir farnir að dæsa yfir því að þúsundir fljúgi á ráðstefnu til að taka þátt í alþjóðasamstarfi sem eins og er er eina von mannkyns til að bjarga sjálfu sér frá loftslagsógninni. Það er búið að reikna út kolefnisspor ráðstefnunnar, það er á við árslosun 7000 heimila og er fyrst og fremst til komið vegna alls flugsins. Loftslagsskrifstofan hefur plantað trjám til að reyna að bæta fyrir þetta.