Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Guterres segir mannkynið standa á krossgötum

Guterres ávarpar þátttakendur á loftslagsráðstefnunni í Madrid í morgun. - Mynd: EPA-EFE / EFE
Á meðan kóalabirnir flýja skógarelda í Ástralíu af veikum mætti, traffíkin í Reykjavík silast áfram, þéttari en nokkru sinni fyrr, Kínverjar byggja kolaorkuver af miklum móð, afleiðingar öfga í veðurfari ógna milljónum í Austur-Afríku og stórsveitir á borð við Coldplay og Massive attack reyna að finna leiðir til þess að túra um heiminn án þess að ýta undir loftslagshamfarir stendur tuttugasta og fmmta loftslagsráðstefna Sameinuðu þjóðanna yfir í Madríd, höfuðborg Spánar.

Ljúka því sem tókst ekki að ljúka í Katowice

Ráðstefnan var sett í morgun. Þátttakendurnir skipta þúsundum og þeirra bíða erfið verkefni. Ef það tekst ekki að leysa þau gætu komið sprungur í þetta brothætta alþjóðasamstarf sem svo ótrúlega mikið veltur á. Það tekur tíma að ræða málin og ná samstöðu um lausnir og því rúmur tími skammtaður til þess, tvær vikur. 

Loftslagsráðstefnan er árlegur viðburður. Þrjár konur stýra henni að þessu sinni, Teresa Ribera, ráðherra umhverfismála á Spáni, Carolina Schmidt, umhverfisráðherra Chile og forseti ráðstefnunnar og loks Patricia Espinosa, leiðtogi loftslagsskrifstofu Sameinuðu þjóðanna.

Hluti íslensku sendinefndarinnar er kominn út til Madrídar, umhverfisráðherra og skrifstofustjóri umhverfisráðuneytisins fara út á sunnudag. 

Í fyrra var ráðstefnan haldin í kolaborginni Katowice í suðurhluta Póllands, þar tókst sendifulltrúum eftir erfiðar viðræður að koma sér saman um vinnureglur í kringum Parísarsamkomulagið. Hvernig skyldi fylgja því eftir og halda utan um árangurinn af aðgerðum, nú eða skort á honum. 

Mynd með færslu
 Mynd:
Frá ráðstefnunni í Katowice.

Leiðtogar þurfi að sýna að þeim sé í alvörunni alvara

Það má kannski segja að ráðstefnan í ár snúist um tvennt, í fyrsta lagi að klára reglubókina. Það tókst ekki að semja um allt í Katowice. Þátttakendur í Madrid þurfa að semja um grein númer sex sem lýtur aðallega að því að koma upp viðskiptakerfi þar sem þau ríki sem standa sig vel í því að draga úr losun geta selt öðrum sem ekki standa sig jafnvel losunarheimildir. Í öðru lagi þá er ráðstefnan einhvers konar upptaktur að ráðstefnunni á næsta ári, vítamínssprauta sem hvetur ríki heims til að endurskoða markmiðin og taka á vandanum. Á næsta ári eiga sendinefndir nefnilega að koma til Glasgow með uppfærð markmið, markmið sem duga ekki skammt eins og nú, heldur duga, punktur. 

Aðalritari Sameinuðu þjóðanna Antonio Guterres segir mikilvægt að þjóðir heims sýni að þeim sé alvara að þær hafi þann pólitíska vilja sem til þarf til að ná kolefnishlutleysi fyrir árið 2050. 

Breitt bil milli markmiðanna og raunveruleikans

epa08039548 Environmental activist Philip McMaster, known as 'Sustaina Claus', poses during the first day of the COP25 Climate Summit held in Madrid, Spain, 02 December 2019. A total of 5,000 agents will look out for the security of about 29,000 people from 196 delegations that will be attending the UN Climate Change Conference COP25 from 02 to 13 December 2019 in the Spanish capital.  EPA-EFE/CHEMA MOYA
 Mynd: EPA-EFE - EFE
Það eru ekki allir í dragt eða jakkafötum. Aðgerðasinninn Philip McMaster, kallar sig sjálfbærnisvein, sustaina claus.

Það er kominn tími til að grípa til aðgerða, #timeforaction. Yfirskrift ráðstefnunnar er kunnugleg en kannski lágstemmd miðað við þann tón sem kvað við í ræðu Guterres á setningarathöfninni í morgun, miðað við skýrslur sem sýna að afleiðingar loftslagsbreytinga eru alvarlegri pg koma hraðar fram en vísindamenn gerðu ráð fyrir. Já og miðað við nýja skýrslu Umhverfisstofnunar Sameinuðu þjóðanna sem sýnir að bilið milli raunveruleikans og þeirra markmiða sem þjóðir heims hafa sett sér er allt of breitt. 

Ef ríki heims standa við markmiðin í einu og öllu, sem er ekki raunin eins og er og ekki endilega líklegt, er útlit fyrir að meðalhiti hækki um 3,2 gráðu fyrir lok þessarar aldar. Til að halda hækkun meðalhita á jörðinni innan öryggismarkanna, einnar og hálfrar gráðu, þurfa þjóðir heims að gefa rækilega í, það þarf fimmfalt kröftugri aðgerðir en þær sem nú hefur verið lofað. 

U-beygja á næsta ári

epa08038801 Norwegian Prime Minister Erna Solberg arrives for the opening ceremony of the COP25 Climate Summit held in Madrid, Spain, 02 December 2019. The UN Climate Change Conference COP25 runs from 02 to 13 December 2019 in the Spanish capital.  EPA-EFE/ZIPI
 Mynd: EPA-EFE - EFE
Erna Solberg, forsætisráðherra Noregs, á setningarathöfninni í dag. Umhverfisráðherra Íslands, Guðmundur Ingi Guðbrandsson, fer út á sunnudag.

Samkvæmt nýrri skýrslu Umhverfisstofnunar Evrópusambandsins þarf heimslosun að minnka um 7,6% á ári næsta áratuginn, síðastliðinn áratug hefur hún verið að aukast um eitt og hálft prósent á ári. Það þarf því U-beygju og viðsnúningurinn þarf að hefjast á næsta ári. Það ár þarf losunin að ná hámarki og svo þarf hún að minnka, ár frá ári. Ef ekki verður brugðist við er hætt við að ekki verði aftur snúið og  tækifærið til að ná 1,5 gráðu markmiðinu renni okkur úr greipum. Guterres talaði um unga fólkið sem mótmælir um allan heim, sagði það skilja þörfina á því að taka mikilvægar ákvarðanir í dag, ekki á morgun. 

Stríð og neyðarástand

Guterres sagði að stöðva þyrfti stríðið gegn náttúrunni, hann talaði um neyðarástand og að fólk þyrfti að opna augun, ummerkin væru alls staðar. Síðustu fimm ár hafi verið þau heitustu frá upphafi mælinga, afleiðingarnar séu farnar að koma fram af krafti, höfin súrni, Suðurskautslandið bráðni með þrefalt meiri hraða en fyrir áratug, sífrerinn bráðni mun hraðar en talið var og  hækkun sjávarmáls ógni mörgum stærstu borgum heims, tvær af hverjum þremur stórborgum standi við sjávarsíðuna.

epa08039022 (L-R) Spanish acting Minister for Ecological Transition Teresa Ribera, Chair of the Intergovernmental Panel on Climate Change South Korean Hoesung Lee, Spanish Prime Minister Pedro Sanchez, Chilean Environment Minister and COP25 President Carolina Schmidt, UN Secretary-General Antonio Guterres and Executive Secretary of the United Nations Framework Convention on Climate Change Patricia Espinosa attend the opening ceremony of the COP25 Climate Summit held in Madrid, Spain, 02 December 2019. The UN Climate Change Conference COP25 runs from 02 to 13 December 2019 in the Spanish capital.  EPA-EFE/JJ GUILLEN
 Mynd: EPA-EFE - EFE
Teresa Ribera, umhverfisráðherra Spánar, Hoesung Lee, formaður IPCC, Pedro Sanchez, forsætisráðherra Spánar, Caroilna Schmidt, umhverfisráðherra Chile, Antonio Guterres, aðalritari og Patricia Espinosa, sem fer fyrir loftslagsskrifstofu SÞ.

Val milli uppgjafar og aðgerða

Guterres sagði að mannkynið stæði á krossgötum. Það geti valið að gefast upp, bregðast sjálfu sér sem tegund og stofna öllum kynslóðum í voða eða það geti valið leið aðgerða og vonar. Viljum við láta minnast okkar sem kynslóðarinnar sem gróf höfuðið í sandinn á meðan jörðin brann? Kynslóðarinnar sem flaut sofandi að feigðarósi? Spurði Guterres? Viljum við kannski frekar láta minnast okkar sem kynslóðarinnar sem gerði það sem gera þurfti, tryggði kolefnishlutleysi fyrir árið 2050 og lét vera að hrófla við því jarðefnaeldsneyti sem enn er ofan í jörðinni?

Kolafíknin geti eyðilagt allt

Guterres talaði um misræmið milli markmiðanna og veruleikans, víða um heim rísi nú kolaorkuver, þá þróun þurfi að stöðva strax. „Annað hvort tökum við á kolafíkninni eða getum gleymt því að gera eitthvað til að stemma stigu við loftslagsbreytingum,“ sagði hann. Það magn jarðefnaeldsneytis sem ríki heims hyggist framleiða á næstu áratugum sé tvöfalt meira en það megi vera, eigi markmiðin að nást. Þetta snúist samt ekki bara um kola- og olíuiðnaðinn. Aðrir geirar eiga líka langt í land að sögn Guterres; samgöngur, matvælaframleiðsla, borgarskipulag, sementsiðnaðurinn. Víða hafi verið tekin skref, en það þurfi ekki bara skref heldur umbreytingar á nær öllum sviðum. Ella ógnum við lífinu sjálfu. 

Bæði glaður og gramur

epa08039738 Attendants sit together for a chat on the first day of the COP25 Climate Summit held in Madrid, Spain, 02 December 2019. Some 5,000 agents will look out for the security of some 29,000 people from 196 delegations that will be attending the UN Climate Change Conference COP25 from 02 to 13 December 2019 in the Spanish capital.  EPA-EFE/JJ GUILLEN
 Mynd: EPA-EFE - EFE
Stuðningur, listaverk sem frumsýnt var á Feneyjartvíæringnum en er nú komið til Madrídar.

Guterres gleðst yfir auknum áhuga á grænum fjárfestingum og nefnir sérstaklega áform evrópska fjárfestingabankans um að hætta að fjárfesta í jarðefnaeldsneyti fyrir árið 2022. Hann gleðst líka yfir því að 70 ríki hafi lýst því yfir að þau hyggist skerpa á markmiðum sínum fyrir ráðstefnuna á næsta ári og 65 ríki hafi skuldbundið sig til þess að vinna að kolefnishlutleysi fyrir árið 2050. Honum gremst aftur á móti að enn hafi G20 ríkin, sem losa um tvo þriðju hluta allra gróðurhúsalofttegunda, lagt lítið af mörkum. Guterres vill að þeir sem mest menga taki sig á, og að þeir beri kostnaðinn af þvi að menga ekki almenningur. Hann segir að grænt hagkerfi sé tækifæri ekki ógn en að hann sé orðinn langþreyttur á aðgerðarleysinu, sérstaklega í ljósi þess að lausnirnar séu flestar til. 

Ráðstefna á hrakhólum 

Upphaflega stóð til að ráðstefnan, sem haldin er af UNFCCC, skrifstofu Rammasáttmála Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar, færi fram í Brasilíu en forseti landsins Jair Bolsonaro, sem er lítið gefið um loftslagsbreytingar eða aðgerðir gegn þeim, hætti við það. Ráðstefnan var þá færð til Kosta Ríka en af efnahagsástæðum reyndist ekki unnt að halda hana þar. Þá var tekin ákvörðun um að halda hana í Santíagó, höfuðborg Chile,  þar er krísuástand og allt logandi í mótmælum og því sá forseti landsins, Sebastian Pinera, sér ekki annað fært, en að hætta við rúmum mánuði áður en ráðstefnan átti að hefjast. COP 25 var þó ekki lengi á hrakhólum, nokkrum dögum síðar tóku stjórnvöld á Spáni hana að sér. Þetta fól auðvitað í sér rask. Þetta er tveggja vikna ráðstefna og búist við um 29 þúsund gestum, margir voru búnir að panta flug til Santíagó og bóka hótel en stjórnvöld í Chile ræddu við hótel og flugfélög, reyndu að búa svo um hnútana að þátttakendur fengju endurgreitt. Tjón þeirra varð því minna en ella. 

Kolefnisspor á við 7000 heimili

Nú eru kannski einhverjir farnir að dæsa yfir því að þúsundir fljúgi á ráðstefnu til að taka þátt í alþjóðasamstarfi sem eins og er er eina von mannkyns til að bjarga sjálfu sér frá loftslagsógninni. Það er búið að reikna út kolefnisspor ráðstefnunnar, það er á við árslosun 7000 heimila og er fyrst og fremst til komið vegna alls flugsins. Loftslagsskrifstofan hefur plantað trjám til að reyna að bæta fyrir þetta. 

Mynd með færslu
Riley Whitelum, Nikki Henderson, Greta Thunberg, Elayna Carausu og Lenny.  Mynd: NN - Twitter
Samferðafólk Thunberg.

Gott í sjóinn 

Flestir breyttu bara fluginu en sumir kæra sig ekki um að fljúga. Það hefði kannski ekki farið svo mikið fyrir þessum flutningum ráðstefnunnar ef ekki hefði verið fyrir það strik sem þeir settu í reikninginn hjá loftslagsaðgerðasinnanum Grétu Thunberg. Hún þurfti að útvega sér kolefnishlutlaust far yfir Atlantshafið í skyndi. Gréta fékk að fljóta með áströlsku pari sem siglir um heiminn á tvíbolungnum Vagabonde og er væntanleg til Lissabon snemma í fyrramálið, aðeins degi á eftir áætlun. Það er gott í sjóinn þannig að síðasti áfangi þessa 21 dags ferðalags ætti að verða þægilegur. 

Framtak Spánverja slái tóninn

Vonast er til þess að frumkvæði stjórnvalda á Spáni setji tóninn fyrir ráðstefnuna, að þessi andi samvinnu eigi eftir að svífa yfir vötnum. Talað er um að spænsk stjórnvöld hafi sýnt mikilvægt fordæmi, á tímum loftslagsógnar þurfi að hafa hraðar hendur og sýna sveigjanleika og einmitt það hafi þau gert.