Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Guns N' Roses spilar á Laugardalsvelli í sumar

Mynd: Wikimedia Commons / Wikimedia Commons

Guns N' Roses spilar á Laugardalsvelli í sumar

24.04.2018 - 05:55

Höfundar

Bandaríska rokksveitin Guns N' Roses heldur tónleika á Laugardalsvelli 24. júlí í sumar. Þeir sem standa að komu sveitarinnar til Íslands fullyrða að tónleikarnir verði þeir stærstu sem haldnir hafi verið hér á landi. 150 manna starfslið kemur með sveitinni hingað til lands og sett verður upp 65 metra breitt svið á Laugardalsvelli. Miðasala á tónleikana hefst 1. maí.

Tónleikarnir á Laugardalsvelli verða síðustu tónleikarnir á hljómleikaferð sveitarinnar, sem hófst í apríl árið 2016. Helstu forsprakkar sveitarinnar, söngvarinn Axl Rose, gítarleikarinn Slash og bassaleikarinn Duff McKagan hafa allir verið með sveitinni á tónleikaferðalaginu, en þeir höfðu ekki komið allir saman fram með sveitinni síðan 1993. Þeir Axl Rose og Slash elduðu lengi grátt silfur en grófu stríðsöxina þegar tónleikaferðalagið hófst fyrir tveimur árum.

Risar rokksins

Guns N' Roses var stofnuð í Los Angeles í Kaliforníu árið 1985. Óhætt er að fullyrða að sveitin sé ein allra vinsælasta rokksveit tónlistarsögunnar, en hún hefur selt yfir 100 milljón plötur á ferli sínum. Fyrsta plata sveitarinnar, Appetite for Destruction, kom út árið 1987 og náði strax miklum vinsældum, enda inniheldur hún lög á borð við Welcome To The Jungle, Paradise City og Sweet Child o' Mine. Næsta plata sveitarinnar, Lies, sem kom út ári síðar, náði ekki eins miklum vinsældum en árið 1991 komu plöturnar Use Your Illusion 1 og 2 sem festu Guns N' Roses endanlega í sessi sem einhverja stærstu og vinsælustu rokksveit heims. Á þeim plötum má finna lög á borð við Don't Cry, November Rain og You Could Be Mine. Árið 1993 kom svo ábreiðuplatan The Spaghetti Incident sem olli flestum aðdáendum sveitarinnar vonbrigðum. Eftir þá plötu hættu þeir Slash og Duff McKagan í sveitinni sem gaf ekki út aðra plötu fyrr en 2008, þegar Chinese Democracy kom út. Frægðarsól sveitarinnar hefur svo risið að nýju eftir að tónleikaferðalagið hófst fyrir tveimur árum, með flestum af upprunalegum meðlimum sveitarinnar.

65 metra svið

Í tilkynningu frá tónleikahöldurunum kemur fram að sérstakt gólf verði lagt á grasið á Laugardalsvelli til þess að vernda völlinn fyrir álagi vegna tónleikanna. Flytja þurfi 35 gáma til landsins, auk þess sem 150 manns ferðist með sveitinni hingað til lands til að sjá um uppsetningu, sem tekur um viku. Sviðið sjálft er 65 metra breitt með risaskjám á hliðunum, að því er fram kemur í tilkynningunni.

Aðstandendur tónleikanna eru þeir sömu og skipuleggja Secret Solstice hátíðina í Laugardalnum, en framkvæmdastjóri hennar er Friðrik Ólafsson.

Miðaverð verður frá 18.900 kr. og miðasala hefst 1. maí.