Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Gunnar Þór fær tækifæri til að koma heim

29.04.2015 - 16:34
Mynd með færslu
 Mynd: Skjáskot - interpol
Gunnar Þór Grétarson, sem Interpol setti á lista yfir eftirlýsta menn fyrir skömmu, hefur verið tekin af þeim lista. Samkvæmt heimildum fréttastofu hefur lögreglan á Íslandi náð sambandi við Gunnar Þór og gefið honum frest til að koma heim sjálfur.

Eftir því sem fréttastofa kemst næst hefur Gunnar Þór alið manninn í Tælandi að undanförnu en fréttastofa hefur ekki upplýsingar um hversu langan frest Gunnar fær til að koma sér heim. 

Hann var eftirlýstur af Interpol vegna gruns um að hann tengdist smygli á fjórum kílóum af amfetamíni frá Svíþjóð til Íslands. Íslenska lögreglan hefur hann grunaðan um að hafa skipulagt smyglið. Ungur Íslendingur var handtekinn með fíkniefnin í Svíþjóð í október - sá er í haldi lögreglunnar þar og bíður dóms.

Gunnar Þór var fyrir fjórum árum dæmdur í tveggja ára fangelsi fyrir rán og líkamsárás á lögregluþjón.

Í þeim dómi kom fram að hann ætti sakaferil að baki allt frá árinu 1998. Hann hafði þá verið dæmdur sautján sinnum fyrir brot gegn almennum hegningarlögum, lögum um ávana- og fíkniefna og umferðalögum.

 

 

Frettir's picture
Fréttastofa RÚV