Gunnar Smári: Kemur vel til greina að hætta

06.04.2017 - 09:53
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Ekkert er fast í hendi með aðkomu nýrra eigenda að Fréttatímanum, að sögn framkvæmdastjórans. Ritstjórinn Gunnar Smári Egilsson segir vel koma til greina að hann hætti afskiptum af blaðinu. Það mundi hins vegar ekki tengjast hugsanlegum breytingum á eignarhaldi heldur frekar sósíalískum stjórnmálaflokki sem hann hefur unnið að því að stofna.

Fréttablaðið sagði frá því í morgun að nýir aðilar væru á leið inn í eigendahóp Fréttatímans og að samkvæmt heimildum blaðsins yrði tilkynnt um breytt eignarhald á næstu dögum. Þá mundi Gunnar Smári samhliða því hætta afskiptum af blaðinu. Hann er nú stærsti eigandi útgáfufélags Fréttatímans. Í fréttinni sagði að starfsmannafundur hefði verið haldinn um framtíð útgáfunnar í gær, reksturinn undanfarið hefði verið þungur og sumir starfsmenn hefðu ekki fengið greidd laun um mánaðamót.

Fréttastofa bar fréttina undir Gunnar Smára, sem segist ekki kannast við neitt af því sem þar kemur fram nema rekstrarerfiðleikana enda hafi hann verið í fríi undanfarna daga.  Hann kannist ekki heldur við að hann hætti afskiptum af blaðinu samhliða breyttu eignarhaldi.

„Nei, ég kannast ekki við það. Hins vegar kemur það alveg vel til greina, bara út af öðrum málum. Ég hef til dæmis undanfarið unnið að stofnsetningu sósíalistaflokks,“ segir hann. Hugsanlega ákveði hann að helga sig þeirri vinnu.

„Erum að leita leiða til að bjarga blaðinu“

Valdimar Birgisson, framkvæmdastjóri Fréttatímans, kannast við að haldinn hafi verið starfsmannafundur. „Ég var á staðnum og fólk talaði saman. Það getur kallast fundur,“ segir hann.

Hins vegar segir hann að nýir eigendur séu ekki komnir að félaginu. Aðspurður hvort það standi til segir hann:

„Nú get ég ekki sagt til um það. Það er alveg mögulegt en það er ekki neitt í hendi. Það er verst varðveitta leyndarmál landsins að rekstur Fréttatímans er í járnum. Félagið hefur leitað til almennings um stuðning við reksturinn. Þannig að við erum á fullu að reyna að skjóta styrkari stoðum undir rekstur blaðsins,“ segir Valdimar.

Hann hafnar því jafnframt að ákveðið hafi verið að Gunnar Smári hætti samhliða breyttu eignarhaldi. „Það eru engar slíkar kröfur uppi. Nú erum við bara að leita leiða til að bjarga blaðinu. Hvort núverandi stjórn verði áfram er svo bara óvíst.“

Hann staðfestir að sumir starfsmenn hafi ekki fengið greitt um mánaðamótin. „Það er töluvert enn eftir,“ segir hann. Starfsmenn hafi hins vegar sýnt biðlund. „Eðlilega vill fólk fá launin sín greidd en það sýnir þessu samt ótrúlegan skilning.“

Enginn hafi hætt á blaðinu vegna þessa síðan um mánaðamót.

stigurh's picture
Stígur Helgason
Fréttastofa RÚV