Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Gunnar segir ummæli Guðfinnu „út í hött“

Mynd með færslu
 Mynd: Samsett: Anton Brink/Framsókn - RÚV
Gunnar Bragi Sveinsson, utanríkisráðherra, segir ummæli Guðfinnu Jóhönnu Guðmundsdóttur, borgarfulltrúa Framsóknar, um Eygló Harðardóttur vera „útí hött“ Guðfinna virðist hafa eytt færslu sinni þar sem hún sagði Eygló ömurlegan ráðherra og að hún skammaðist sín fyrir að vera í sama flokki og hún.

Facebook-færsla Guðfinnu hefur vakið mikla athygli en borgarfulltrúinn og ráðherrann er flokkssystur í Framsóknarflokknum.

Guðfinna sagði í hádegisfréttum Bylgjunnar að Eygló, sem er félags- og húsnæðismálaráðherra, ætti að segja af sér embætti, tæki hún sig ekki taki og ynni húsnæðismálin af skynsemi.  Eygló stóð í ströngu á árinu vegna tveggja húsnæðisfrumvarpa sinna. 

Færsla borgarfulltrúans er horfin af Facebook-síðu hans - hana var hægt að sjá á síðu hennar í morgun. Fréttastofa hefur reynt að ná tali af Guðfinnu í dag, án árangurs.

Freyr Eyjólfsson, dagskrárgerðarmaður Síðdegisútvarpsins á Rás 2, hitti Gunnar Braga, utanríkisráðherra, í morgun og spurði hann út í ummælin.Ráðherrann var afdráttarlaus , sagði enga spennu né átök í Framsóknarflokknum og að Eygló hefði staðið sig gríðarlega vel sem ráðherra. Hún hefði staðið föst á sínu varðandi húsnæðismálin og velferðarmálin.

Hann sagði ummæli borgarfulltrúans útí hött. „Guðfinna þarf að skýra hvað henni dettur í hug. Ég held að fólk ætti að hugsa áður en það setur eitthvað á bloggið, hvort sem það er snemma dags eða seint á kvöldin.“

Gunnar Bragi sagði það alltaf óviðeigandi þegar fólk talaði svona. „Og mér finnst undarlegt að Guðfinna skuli yfirleitt láta þetta út úr sér og það er hennar að skýra hvað vakir fyrir henni. Við höfum fullt af leiðum til að ræða svona hluti innan flokksins eins og aðrir flokkar. Ef fólk kýs að reka svona á almennum vettvangi þá verður það bara að standa fyrir því,“ sagði Gunnar Bragi sem ítrekaði að Eygló hefði hundrað prósent stuðning innan Framsóknarflokksins. 

 

Nánar verður rætt við Gunnar Braga í Síðdegisútvarpinu á Rás 2 í dag.

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV