Gunnar Nielsen brotinn - frá í tvo mánuði

Mynd með færslu
 Mynd: Tomasz Kolodziejski - RÚV

Gunnar Nielsen brotinn - frá í tvo mánuði

11.05.2019 - 14:00
Gunnar Nielsen, markvörður FH í úrvalsdeild karla í fótbolta, er brotinn á hendi og verður frá keppni næstu tvo mánuði.

Gunnar meiddist eftir samstuð við Elfar Árna Aðalsteinsson, framherja KA, er liðin mættust í gær. Elfar Árni og Gunnar rákust saman þegar Elfar kom KA 2-1 yfir á 65. mínútu og Gunnar þurfti í kjölfarið að fara af velli. FH kom til baka eftir mark Elfars og vann leikinn 3-2.

Haft er eftir Halldóri Orra Björnssyni á Fótbolti.net að Gunnar hafi brotnað og verði frá næstu tvo mánuðina.

„Hann er brotinn og mér skilst að hann verði frá næstu tvo mánuði,“ sagði Halldór Orri við Fótbolti.net.

Gunnar gæti því misst af hátt í átta deildarleikjum sem FH spilar á næstu tveimur mánuðum auk þess að missa af leik liðsins gegn ÍA í bikarkeppninni sem fram fer um mánaðamótin maí/júní. Þá gæti Gunnar einnig misst af landsleikjum Færeyja gegn Spáni og Noregi í undankeppni EM 2020 í næsta mánuði.

Vignir Jóhannesson leysti Gunnar af í marki FH í gær og mun líklega standa milli stanganna næstu vikurnar.

FH hefur farið ágætlega af stað í úrvalsdeildinni en liðið deilir toppsæti deildarinnar með Breiðabliki. Bæði lið eru með sjö stig eftir fyrstu þrjá leikina. Þá vann FH Íslandsmeistara Vals í 16-liða úrslitum bikarsins.